Laugardaginn 5. júní sl. var vígt nýtt björgunarskip sem þjóna á Húnaflóasvæðinu.
Í formlegri athöfn sem var hluti hátíðarhalda sjómanndagsins var skipinu gefið nafnið Húnabjörg. Athöfnin hófs með því að Ernst K. Berndsen formaður björgunarsveitarinnar Strandar flutti ávarp og greindi frá því hvernig hafi verið staðið að kaupum á skipinu og fjármögnun þess. Þar kom fram að allar björgunarsveitir við Húnaflóa hafið staðið mjög þétt að baki málinu og bæði stutt og styrkt kaupin. Einnig hafi fjöldi fyrirtækja bæði við Húnaflóa og annarsstaðar lagt málinu lið. Þá hafi öll sveitarfélögin á svæðinu veitt myndarlegan fjárstuðning til að gera kaupin möguleg. Þessi einhugur hafi valdið því að sérstaklega vel hafi gengið að koma málinu áfram.
Einn af dyggustu liðsmönnum björgunarsveitarinnar, Jökulrós Grímsdóttir afhjúpaði nafn skipsins og sóknarpresturinn séra Magnús Magnússon blessaði það og nafn þess með stuttri athöfn.
Formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sigurgeir Guðmundsson flutti ávarp og rakti m.a. með hvaða hætti björgunarbátavæðing landsins hafi gengið fyrir sig og rifjaði upp það stórátak sem gert hefur verið í þeim efnum. Sigurgeir nefndi hvernig slagorðið „Lokum hringnum”, hafi ekki síst átt við um kaupin á þessu skipi. Hann lýsti einnig þeim góðu samskiptum sem hafi verið við Konunglegu bresku sjóbjörgunarsamtökin. Samstarfið við þá og möguleikinn á að fá keypt vönduðu skip, sem sérfræðingar á þessi sviði hafi sérhannað, sé ómetanlegt fyrir björgunarmál á Íslandi. Hann færði íbúum við Húnaflóa árnaðaróskir með Húnabjörgu og óskaði henni og björgunarsveitum á svæðinu velfarnaðar. Auk Sigurgeirs var við vígsluna Smári Sigurðsson, varaformaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Sigurður Viðarsson starfsmaður björgunarsviðs.
Dagskrá sjómannadagsins á Skagaströnd var öll hin hátíðlegasta og hófst með skemmtisiglingu þar sem Húnabjörgin og allir björgunarbátar við Húnaflóa tóku þátt í björgunaræfingu ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar TF SIF. Hluti hátíðarhalda sjómanndagsins var einnig sýning á tækjum og búnaði björgunarsveitanna á öllu Húnaflóasvæðinu. Eftirtektarvert var hversu mikil og góð samvinna er á milli björgunarsveitanna og hve góð samstaða var um að undirstrika að vígsla Húnabjargar er mikilvægur viðburður í sögu björgunarmála á þessu svæði.