Nýtt sóknarfæri í sjávarútvegi

Adolf og Þorseinn undirrita samninginn
Adolf og Þorseinn undirrita samninginn

Háskólinn á Akureyri og BioPol ehf, nýtt sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd, skrifuðu í dag undir samning um samstarf á sviði sjávarlíftækni. Jákvæð áhrif á byggðarþróun á Skagaströnd. Styrkum stoðum rennt undir nýtt rannsóknarfyrirtæki í sjávarútvegi.

 

Rannsóknir á lífríki Húnaflóa eru meðal þess sem ráðist verður í samkvæmt nýjum samningi á milli BioPol ehf. og Háskólans á Akureyri. BioPol ehf. er nýtt sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd sem er ætlað að standa að margvíslegum rannsóknum m.a. á lífríki Húnaflóa, líftækni og nýsköpun.

„Ætlun okkar er að stuðla að nýjum áherslum í atvinnumálum á Skagaströnd,“ segir Adolf Berndsen, oddviti Skagastrandar og stjórnarformaður BioPol. „Í kjölfar þeirra breytinga sem hafa orðið á sjávarútvegi Íslendinga er gríðarlega mikilvægt að atvinnulífið sé vakandi fyrir tækifærum í sjávarútvegi. Okkar von er að þetta fyrirtæki komi til með að vera brautryðjandi í rannsóknum á lífríki hafsins og skapa fjölmörg störf í sjávarbyggðum allt í kringum Ísland, þegar fram líða stundir. Þess má til dæmis geta að talið er að aðeins um 1% lífvera sjávar hafi verið kannaðar að einhverju marki og því eru viðfangsefnin nær óþrjótandi.“

Jákvæð áhrif á atvinnulíf og byggðaþróun
Bæði forsvarsmenn BioPol og Háskólans á Akureyri eru bjartsýnir á að stofnun fyrirtækisins og samningurinn muni hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf og byggðaþróun á svæðinu. Þá mun samstarfið ótvírætt stuðla að aukinni þekkingu á helstu auðlind Íslendinga, hafinu sem umlykur landið. Þessu til viðbótar mun samningurinn efla hagnýtar rannsóknir á sviði sjávarlíftækni, sem getur haft í för með sér umtalsverða verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag.

Eins og áður sagði mun kjarnastarfsemi BioPol ehf. byggja á rannsóknum á lífríki Húnaflóa, rannsóknum á vettvangi líftækni, nýsköpunar og markaðsetningu á afurðum líftækni úr sjávarlífverum. Auk þess verður fræðsla á háskólastigi í tengslum við fyrrgreindar rannsóknir ásamt varðveislu lífsýna úr sjávarlífríki við Ísland.

Þá er ætlunin að BioPol ehf. og Háskólinn standi árlega saman að málstofu um sjávarlíftækni þar sem farið verður yfir stöðu verkefna sem samstarfið hefur leitt af sér og ávinning af samstarfinu. Auk þess skal stefnt að því að opna netsvæði þar sem safnað verður saman upplýsingum um rannsóknarverkefni samstarfsaðila á sviði sjávarlíftækni.

Í eigu Skagastrandar
Undanfarna mánuði hefur Sveitarfélagið Skagaströnd unnið að stofnun setursins í samvinnu við ýmsa aðila. Sveitarfélagið er nú eigandi setursins en ætlunin er að fjölga hluthöfum og samstarfsaðilum á næstu misserum. Í stjórn BioPol ehf. sitja fimm manns og mun Háskólinn á Akureyri skipa einn þeirra án tillits til eignarhalds eða eignaraðildar. Dr. Hjörleifur Einarsson, prófessor í viðskipta og raunvísindadeild HA verður fulltrúi skólans í stjórninni.

Meginmarkmið samningsins við Háskólann á Akureyri er að efla samstarf varðandi rannsóknir og tækniþróun á sviði sjávarlíftækni, matvælafræði og tengdra sviða. Í því felst m.a. að skilgreina ný rannsóknarverkefni og liggur helsti styrkleiki samstarfsins í samlegð ólíkrar sérfræðiþekkingar og þar með meiri líkum á árangri stærri rannsókna- og þróunarverkefna.

Fyrir á Skagaströnd er líftæknifyrirtækið Zero ehf. sem vinnur að framleiðslu bragðefna með sérþróuðum aðferðum sem gerir fyrirtækið einstak í sinni röð í heiminum.

Samnýting fræðilegrar og tæknilegrar þekkingar
Einnig er stefnt að aukinni samnýtingu fræðilegrar og tæknilegrar þekkingar til þess að stuðla að framgangi hagnýtra rannsókna á sviði sjávarlíftækni og þar með hugsanlega verðmætasköpun. Ætlunin er að Háskólinn á Akureyri hafi aðgang að húsakynnum, búnaði og gögnum BioPol ehf. til kennslu og rannsókna á sviði sjávarlíftækni og annarra þeirra verkefna sem tengjast starfseminni.

Verkefnisstjóri, með þekkingu á sjávarlíftækni, hagnýtri örverufræði, vinnslutækni matvæla, nýsköpunar og atvinnuþróunar, mun koma frá Háskólanum. Hlutverk hans verður fyrst og fremst mótun faglegra áherslna samstarfsins og umsjón rannsóknarverkefna.

BioPol ehf. leggur til aðgengi að sérfræðiþekkingu og aðstoð við mótun rannsóknarverkefna og útfærslu þeirra. Skipuð verður sameiginleg stýrinefnd sem hefur það  hlutverk að sjá um framkvæmd samningsins og undirsamninga sem honum tengjast. Árangur samstarfsins verður metinn af nefndinni, en í henni munu eiga sæti tveir fulltrúar frá hvorum aðila og mun hún funda a.m.k. á sex mánaða fresti.

Formleg undirskrift samningsins var miðvikudaginn 5. september kl. 11.00 í anddyri Borga, Háskólanum á Akureyri. Samninginn undirrituðu Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans og Adolf H. Berndsen, stjórnarformaður BioPol ehf. og oddviti Skagastrandar.

 

Frekari upplýsingar gefa:

Halldór G. Ólafsson

framkvæmdastjóri BioPol ehf.

Sími 8570443

 

Dr. Hjörleifur Einarsson

Prófessor við Háskólann á Akureyri

Sími: 8969611

 

Magnús B. Jónsson

sveitarstjóri Skagastrandar

Sími 455 2700