Veðurspáin næstu daga er ekki hin glæsilegasta og hefur rauð viðvörun verið gefin út fyrir Norðurland vestra.
Skólahald í grunn- og leikskóla á Skagaströnd verður fellt niður á morgun þriðjudag að beiðni Almannavarna ríkisins. Ef efni standa til verður það framlengt út miðvikudag.
Á heimasíðu Veðurstöfu Íslands segir:
Útlit er fyrir norðaustan og síðan norðan rok, jafnvel ofsaveður, (23 til 33 m/s) með talsverðri eða mikilli snjókomu og skafrenningi.
Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.
Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda, allt að 10 m. ölduhæð og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju.
Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám.
Íbúar eru hvattir til þess að ganga tryggilega frá híbýlum og lausamunum til þess að takmarka það tjón sem getur orðið í svona aftaka veðri.
Sveitarstjóri