Og nú er jólatré komið á Hnappsstaðatún. Af einskærri tilhlökkun leikur það nú við hvern sinn fingur enda verða ljósin á því tendruð á morgun, laugardaginn 27. nóvember, kl. 17.
Og af óviðráðanlegri forvitni leggja jólasveinarnir leið sína ofan úr Spákonufelli því, ljósadýrðin á jólatrénu sker í augun og forvitnin er að gera útaf við þá. Það er gömul venja þeirra að hafa líka með sér eitthvað góðgæti með sér til að gefa börnum.
Og börnin fara að hlakka til ... enda eru jólasveinarnir aldrei kátari en í upphafi aðventu en þá hefur vinnuálagið ekki enn sett mark sitt á þessa hörkuduglegu og góðgjörnu karla sem hafa það að tilgangi lífs síns að gleðja góðu börnin.
Og svo verða jólalögin sungin. Tekur þá hver undir með sínu nefi. Um leið er dansinn stiginn í kringum hið nýja jólatré og fylgt öllum þeim hefðum og venjum sem myndast hafa í gegnum árin.
Og í anda verður gengið í kringum einiberjalyng, yfir sjó og land með Adam og sjö sonum hans, tiplað á hrakningum Jóns á Völlunum, sagt hvernig eigi að skúra gólf, sungið um Sigga sem leitar að flibbahnappnum hans pabba síns meðan mamma er á bakvið eldavélina og kyssir jólasveininn ...
Og Grýla stendur fjarri, andlega niðurbrotin, með galtóman pokann sinn, pælir í að skipta um starfsvettvang, mennta sig upp á nýtt enda frekar ógeðfellt að hafa þann eina lífsstarfa að éta börn. Þá er nú betra að rápa um í búðum, skoða jólatilboðin og fara í nudd.