Næsti umsóknarfrestur um styrki úr Vaxtarsamningi Norðurlands vestra rennur út 15. október nk. Forgang hafa verkefni á sviði menntunar og rannsókna eða ferðaþjónustu og menningar.
Eingöngu koma til greina verkefni, sem eru unnin í samstarfi tveggja eða fleiri aðila. Ekki er heimilt að veita styrki til fjárfestinga í fyrirtækjum eða til reksturs fyrirtækja eða opinberra stofnana, auk þess sem stofnkostnaður er ekki styrkhæfur.
Styrkur getur að hámarki numið 60 % af heildarkostnaði við hvert einstakt verkefni.
Nánar um forgangsflokka verkefna:
Menntun og rannsóknir
Einkum koma til greina hagnýt rannsóknarverkefni sem tengjast:
- bættri nýtingu afurða úr landbúnaði og sjávarútvegi á Norðurlandi vestra, ekki síst með tilliti til sjálfbærni, umhverfisverndar og auðlindalíftækni
- uppbyggingu þekkingar og eflingu þekkingarsetra á Norðurlandi vestra
Ferðaþjónusta og menning
Til greina koma verkefni er stuðla að eflingu ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra, einkum á sviði
- sagnaarfsins
- íslenska hestsins
- náttúru og umhverfis
- handverks
Vaxtarsamningi Norðurlands vestra er ætlað að stuðla að uppbyggingu klasa á áðurtöldum sviðum.
Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér þau verkefni, sem þegar hafa hlotið styrki á vegum samningsins, með þéttingu samstarfsnets fyrir augum.
Umsóknareyðublöð er að finna á www.vnv.is.
Nánari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri, í síma 455 7931, netfang hjordis.gisladottir@ssnv.is