Skrifstofa Menningarráðs Norðurlands vestra, að Bjarmanesi á Skagaströnd, var formlega opnuð föstudaginn 21. september sl.
Guðrún Helgadóttir, formaður ráðsins, bauð gesti velkomna. Í ræðu hennar kom fram að á þessu ári hafi fjórir nýir menningarfulltrúar verið ráðnir og með því hringnum lokað í samningum ríkis og sveitarfélaga um eflingu menningarstarfs á landsbyggðinni.
Formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Adolf H. Berndsen, óskaði íbúum svæðisins til hamingju með nýgerðan samning ríkis og SSNV en samningurinn er forsenda fyrir þeim nýju verkefnastyrkjum á sviði menningarmála sem auglýstir hafa verið.
Við opnunina söng Alexandra Chernyshova sópransöngkona nokkur lög en hún er búsett á Hofsósi og kennir m.a. við Tónlistarskóla Skagafjarðar.
Ingibergur Guðmundsson, menningarfulltrúi, lýsti þeirri von sinni að opnun skrifstofu og nýjar styrkveitingar myndu efla og auðga menningarstarf á Norðurlandi vestra. Þá sagði hann stuttlega frá sögu Bjarmaness, hússins þar sem skrifstofan er staðsett.
Menningarráð Norðurlands vestra auglýsti fyrstu úthlutun verkefnastyrkja í byrjun september en umsóknarfresturinn rennur út 1. október nk. Það eru því síðustu forvöð að sækja um.
Myndir: Ljósmyndari er Jón Sigurðsson