Pistill frá formanni Umf Fram

Ágætu foreldrar.

 

Ég vil fyrir hönd félagsins byrja á að þakka ykkur fyrir samstarfið í sumar. Að mínu mati gengu æfingar og leikjanámskeið sumarsins með ágætum. Þátttaka var nokkuð góð og krakkarnir duglegir ….en munum að alltaf má gera betur. Það myndaðist hópur sem stundaði frjálsar íþróttir af miklum áhuga og var stöðugt að bæta sig.  Við sendum fulltrúa á nokkur mót í frjálsum og fótbolta bæði innan og utan héraðs.

Það sem að stendur uppúr að mínu mati og er mér minnisstæðast úr sumarstarfinu var Barnamót USAH sem var haldið hér á Skagaströnd þann 20 júlí. Þar tóku þátt 49 keppendur sem stóðu sig allir frábærlega. U.M.F. Fram átti þar 32 keppendur og ég verð að segja að þar á meðal leynast stórefnilegir einstaklingar.

 

 Við verðum í sameiningu að hlú að ungviðinu og  hvetja það, á jákvæðan hátt, til þátttöku í íþróttastarfi. Áhuginn byrjar hjá okkur í formi hvatningar. Tækifærin hafa að mínu mati aldrei verið betri hér á Skagaströnd.

 

Nú er vetrarstarfið farið af stað í íþróttahúsinu. Boðið er upp á 4 æfingar á viku í 3 aldursflokkum.  Um þessar mundir eru að jafnaði að mæta 50 krakkar á dag.  Það er langt síðan áhuginn í upphafi vetrarstarfs hefur verið meiri. Er það gott.  

Stjórn U.M.F Fram hefur ákveðið að innheimta æfingagjöld kr. 5000 til áramóta og sömu upphæð eftir áramót. Skráningareyðublöð til að staðfesta þátttöku fram að áramótum eru afhent á æfingum og þarf að skila þeim í síðasta lagi mánudaginn 10. október. Giroseðlar verða síðan sendir forráðamanni barnsins/unglingsins. Æfingagjöldin eru aðgöngumiði að öllum æfingunum í viðkomandi aldursflokki. Veittur verður 1000 kr systkinaafsláttur fyrir systkini nr. 2 og 3 frá sama heimili.

Litið verður á þann tíma sem liðinn er af vetrarstarfinu sem prufutímabil og því verður ekki innheimt sérstaklega fyrir það.

 

Stjórn U.M.F Fram leggur af stað inn í vetrarstarfi með eftirfarandi hugmyndir í farteskinu sem vonandi geta orðið að veruleika:

 

·        Grislingamót er badmintonmót fyrir byrjendur fædd 1995 og síðar sem haldið er á Akranesi í janúar. Þar viljum við sjá fulltrúa frá félaginu taka þátt.

 

·        “Fótboltadagur”. Okkur langar til að bjóða ungmennum úr héraðinu að koma til okkar einn laugardag og slá til fótboltaveislu. Þar yrðu mynduð lið óháð búsetu sem síðan spiluðu innbyrðis. Allt til gamans.

 

·        “Badminton heimsókn” Okkur langar til að fá til okkar gesti frá Siglufirði eða Akranesi sem stunda badminton. Á þetta yrði litið sem sameiginlegar æfingabúðir.

 

·        Goðamót. Undanfarna vetur hefur félagið sent fulltrúa sem stunda fótbolta á Goðamótið á Akureyri. Stefnt er að því að gera eins í vetur.

·        “Frjálsíþrótta heimsókn” Í fyrra kom hingað í æfingabúðir hópur 15-18 ára ungmenna frá frjálsíþróttadeild ÍR Sú heimsókn tókst vel og ÍR-ingar hafa áhuga á því að koma hingað með 12-14 ára unglinga.

 

Í lokin vil ég hvetja ykkur foreldra og forráðamenn til þess að taka virkan þátt í starfi félagsins og endilega koma með ábendingar um eitthvað sem betur mætti fara, eða ef eitthvað er sem ykkur finnst vel vera gert.

 

Kveðja    Halldór G. Ólafsson

form U.M.F Fram.