Laugardaginn 5. apríl stendur Menningarráð Norðurlands vestra fyrir ráðstefnu um menningartengda ferðaþjónustu. Ráðstefnan verður haldin í Félagsheimilinu á Blönduósi og hefst kl. 13.00 með ávarpi ferðamálastjóra.
Menningarráði Norðurlands vestra er m.a. ætlað að vera samstarfsvettvangur um menningarmál í fjórðungnum. Stefna ráðsins er m.a. sú að auka samstarf í menningarmálum og stuðla að frekari kynningu á því menningarstarfi sem unnið er á svæðinu. Áhersla er lögð á að öflug menningarstarfsemi sé mikilvægur þáttur í því að skapa góð atvinnu- og búsetuskilyrði.
Ráðstefnan er haldin undir kjörorðinu Samstarf til sóknar og er tilgangurinn að vekja athygli á möguleikum sem felast í samstarfi aðila er starfa að menningarmálum og ferðaþjónustu í landshlutanum.
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, mun flytja ávarp við setningu ráðstefnunnar. Þá mun Guðrún Þ. Gunnarsdóttir, deildarstjóri ferðamáladeildar Hólaskóla, flytja erindi sem hún nefnir „Sviðsetning menningartengdrar ferðaþjónustu“.
„Menningin og við“ nefnist erindi Hrafnhildar Víglundsdóttur, framkvæmdastjóra Selaseturs Íslands á Hvammstanga en fyrirtækið er nýtt og hefur vakið mikla athygli fyrir fróðlegar og skemmtilegar sýningar.
Eitt af leiðandi fyrirtækjum á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu er án efa Landnámssetrið í Borgarnesi. Kjartan Ragnarsson, framkvæmdastjóri þess, mun á ráðstefnunni flytja erindi sem hann nefnir „Landnámssetrið í samstarfi“ og fjallar þar um samstarf fyrirtækisins við aðra aðila á Vesturlandi.
Rögnvaldur Guðmundsson, ferðamálaráðgjafi, hefur unnið víða um land með ferðþjónustuaðilum, sveitarfélögum og fleirum. Hann er formaður Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu og mun á ráðstefnunni fjalla um árangur samtakanna og framtíðarsýn.
Á meðan á ráðstefnunni stendur verður ljósmyndasýning í anddyri Félagsheimilisins sem er hluti af væntanlegri sýningu er nefnist Horft til himins og fékk á síðasta ári styrk frá Menningarráðinu.
Í anddyrinu verður einnig sýnd á stórum sjónvarpsskjá upptaka af óperunni La Traviata eftir Verdi sem Ópera Skagafjarðar setti upp og sýndi á síðasta ári og naut til þess styrks frá Menningarráði.
Hestaíþróttir eru vinsælar á Norðurlandi vestra og þess vegna mun Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi sýna í anddyrinu reiðföt karla og kvenna frá fyrri tíð.
Nánari upplýsingar veitir:
Ingibergur Guðmundsson
Menningarfulltrúi Norðurlands vestra
Sími: 892 3080 / 452 2901
Tölvupóstur: menning@ssnv.is