Rannsóknir á örplasti í Húnaflóa

 

Frá árinu 2012 hefur Sjávarlíftæknisetrið Biopol ehf, yfir vor og sumarmánuði, fylgst með eðlis- og lífffræðilegum þáttum sjávar fyrir utan Skagaströnd. Í þessum sýnatökum hefur hitastig og selta verið mæld á mismunandi dýpum og fylgst hefur verið með tegundasamsetningu og fjölda svifþörunga.  Einnig hafa sérstök sýni verið tekin til þess að fylgjast með stærð og magni kræklingalirfa. Starfsmaður var í upphafi þjálfaður til þess að fara í gegnum lirfusýnin og hefur sami aðili því sinnt þeim talningum frá upphafi. Fljótlega fór þessi samviskusami starfsmaður að veita athygli torkennilegum þráðum í mörgum litum sem sáust undir víðsjánni við lirfutalningarnar. Við nánari athugun kom í ljós að um var að ræða plastþræði sem ákveðið var að telja ásamt kræklingalirfunum.

Í vor var síðan ákveðið að taka þessa talningu á plastþráðum alvarlegri tökum í ljósi þeirrar mikilvægu umræðu sem plastmengun í hafinu hefur fengið undanfarið. Í dag eru tekin vikulega sérstök sýni til þess að meta magn örplasts í Húnaflóa. Sýnatakan fer þannig fram að netháfi, sem hefur möskva sem eru 100 míkron (0,1mm) að  stærð, er sökkt niður á 20 metra dýpi og síðan dreginn rólega upp á yfirborðið aftur. Við þá aðgerð er áætlað að í gegnum háfinn pressist 1413 lítrar af sjó og allar agnir sem er stærri en 100 míkron sitji eftir í háfnum. Innihaldi háfsins er síðan safnað í ílát og meðhöndlað á rannsóknastofu BioPol þar sem efni eru notuð til þess að leysa upp öll lífræn efni. Það sem eftir situr er í framhaldinu síað í gegnum síupappír og á honum koma því hugsanlegar plastagnir í ljós.

Á meðfylgjandi mynd sem tekin er í gegnum víðsjá má sjá það sem finna mátti í einu sýni sem tekið var í síðustu viku. Dæmi hver fyrir sig en okkur finnast þessar myndir frekar óhugnarlegar og varpa ljósi á að pastmengun í hafinu er ekki endilega bara vandamál sem snerta aðrar þjóðir og fjarlæg hafsvæði.

Halldór G. Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol