Samningi við Hjallastefnu um leikskólann frestað

  Á fundi sveitarstjórn 19. maí sl. var m.a. tekið fyrir bréf Magrétar Pálu Ólafsdóttur um Hjallastefnu.

 

Með bréfinu þakkar Margrét Pála bæði sveitarstjórn, skólafólki og foreldrum á Skagaströnd fyrir umræður um skólamál á liðnum vetri og einnig fyrir þann áhuga sem fjölmargir aðilar hafa sýnt á samstarfi við Hjallastefnuna. Með vísan til þess að kosningar standa fyrir dyrum í sveitarfélaginu telji hún mikilvægt að ný sveitarstjórn hafi frjálsar hendur um málefni skólasamfélagsins á næstu fjórum árum. Því telji hún rétt að Hjallastefnan dragi sig i hlé og óskar öllu skólasamfélaginu gæfu og gengis.

 

Fylgiskjal með bréfi Margrétar Pálu var bréf með niðurstöðum skoðanakönnunar sem foreldrafélög leikskóla og grunnskóla létu gera. Þar kemur fram að meirihluti foreldra leikskólabarna vilja Hjallastefnuna inn í leikskólann.

 

Sveitarstjórn lýsti vonbrigðum með að ekki hefði tekist að ljúka samningagerð við Hjallastefnuna en fram kom að í ljósi þess hve skammt er til sveitarstjórnarkosninga er sveitarstjórn sammála því sjónarmiði að réttara sé að ný sveitarstjórn taki ákvörðun um slíkan samning.

 

Sveitarstjórn lýsti sérstakri ánægju með framtakssemi og dugnað foreldrafélaga skólanna við gerð skoðanakönnunar meðal foreldra.