Fréttatilkynning
Sveitarfélagið Skagaströnd og Rarik hafa gert samning um lagningu hitaveitu til Skagastrandar. Samningurinn sem var undirritaður 30. desember 2011 felur í sér að sveitarfélagið greiðir fast gjald til Rarik sem mun leggja stofnæð og dreifiveitu um byggðina á Skagaströnd og tengingu við hitaveitu Blönduóss. Með framlagi sveitarfélags og sérstöku framlagi á fjárlögum ríkisins hefur arðsemi af veitunni verið tryggð.
Þegar framkvæmdum lýkur verður um að ræða eina veitu með veitusvæði sem nái yfir það svæði sem hitaveitan á Blönduósi gerir nú ásamt því sem við bætist með lagningu hitaveitunnar til Skagastrandar. Þar af leiðandi verður ein gjaldskrá fyrir allt veitusvæðið.
Rarik hefur þegar boðið út efni til veitunnar og mun í framhaldi af gerð samningsins staðfesta pöntun á efni. Verklegar framkvæmdir verða boðnar út á nýju ári og munu skiptast í þrjá megin verkhluta: Lagningu nýrrar stofnæðar frá Reykjum að Blönduósi sem verði unnin á árinu 2012, lagningu stofnæðar frá Blönduósi til Skagastrandar á fyrri hluta árs 2013 og lagningu dreifikerfis um byggðina á Skagaströnd sumarið og haustið 2013. Gert er ráð fyrir að fyrstu hús munu tengjast haustið 2013 og að öll hús hafi möguleika á tengingu haustið 2014.
Samhliða lagningu hitaveitunnar hefur sveitarstjórn samið um að lagt verði pípukerfi fyrir ljósleiðara sem opni nýja möguleika í framtíðinni á flutningi stafrænna gagna fyrir heimili og fyrirtæki sem tengjast veitunni.
Sveitarstjórn Skagastrandar lítur á fyrirhugaða tengingu við hitaveitu sem mikið framfaraskref fyrir byggðina og að með því opnist ýmsir möguleikar fyrir fjölskyldur og fyrirtæki auk þess áætlaða sparnaðar í orkukostnaði sem næst með nýtingu jarðvarma til húshitunar.
Sveitarstjórn er jafnframt fullljóst að í hverri húseign þarf að kosta nokkru til við umrædda breytingu og mun halda kynningarfund 5. janúar n.k. í Fellsborg kl 17.30 þar sem samningurinn og það sem af honum leiðir mun verða kynnt fyrir íbúum.
Sveitarstjórn Skagastrandar