Sveitarstjórn Skagastrandar og Hjallastefnan ehf. hafa gert með sér viljayfirlýsingu um samstarf í skólamálum á Skagaströnd. Viljayfirlýsingin var undirrituð 31. mars sl. að afloknum kynningarfundi á Hjallastefnunni sem foreldrafélög skólanna á Skagaströnd héldu.
Sveitarfélagið og Hjallastefnan ehf móta með viljayfirlýsingunni sameiginlega sýn á fyrirkomulag samstarfsins á Skagaströnd en í henni kemur m.a. fram:
Aðilar eru sammála um að frá og með dagsetningu undirritunar viljayfirlýsingarinnar hefjist Hjallastefnan handa við undibúning þess að gerður verði bindandi samningur um rekstur leikskólans Barnabóls á Skagaströnd. Stefnt er að því Hjallastefna taki við rekstri leikskóla frá miðju ári 2014. Í apríl verði unnið að gerð formlegs samings um leikskólann og þar með hefji Hjallastefnan aðlögun að breytingu í fagstarfi leikskólans sem væri m.a. fólgið í komu „gestakennara“ frá Hjallastefnuskólanum á Akureyri. Sömuleiðis færi starfsfólk frá Skagaströnd á Akureyri til að kynnast starfsemi Hjallstefnuleikskóla. Stefnt skuli að því að Hjallastefnan taki við mannaforráðum í leikskólanum 1. júní 2014. Fyrir þann tíma hafi fulltrúar Hjallastefnu farið yfir mönnun og starfsmannahald sem leiði af sér endurráðningu starfsmanna á forsendum Hjallastefnunnar. Ef samningar ganga eftir muni Sveitarfélagið Skagaströnd gefa út nýtt starfsleyfi til Hjallastefnu 1. ágúst 2014 fyrir sjálfstætt starfandi leikskóla.
Aðilar eru sammála um að hefja samstarf um þróun grunnskólans í átt að Hjallastefnu og að skoðað verði með starfsfólki og foreldrum á skólaárinu 2014-2015 hvort grundvöllur er til að hefja formlegt samstarf eða gera samning um rekstur grunnskólans.
Sá fyrirvari er gerður af hálfu beggja aðila að fjárhagslegt samkomulag náist og sameiginleg sýn á endanlegt fyrirkomulag og rekstur skólanna.