Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi sem tileinkuð er Grími Gíslasyni, fréttaritara, hestamanni og bónda frá Saurbæ í Vatnsdal, fór fram í félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd 18. mars.
Keppendur voru 7. bekkingar úr Höfðaskóla, grunnskólanum á Blönduósi, Húnavallaskóla og grunnskóla Húnaþings Vestra.
Keppnin var hörð og jöfn en dómnefnd, sem í sátu meðal annars tvö börn Gríms Gíslasonar, varð að lokum sammála um að Lilja Karen Kjartansdóttir úr grunnskóla Húnaþings Vestra hefði staðið sig best. Albert Óli Þorleifsson varð í öðru sæti og Benedikt A. Ágústsson í því þriðja. Báðir eru strákarnir úr grunnskólanum á Blönduósi.
Hlutu sigurvegararnir peningaverðlaun frá Sparisjóðnum á Hvammstanga auk viðurkenningarskjals. Lilja Karen mun varðveita farandskjöld, sem Grímur Gíslason gaf til keppninnar, fram að næstu keppni að ári. Allir keppendurnir fengu síðan tvenn bókaverðlaun.
Skólarnir í Húnavatnsþingi notuðu tækifærið og heiðruðu Þórð Helgason, formann dómnefndar og einn af upphafsmönnum stóru upplestrarkeppninnar og færðu honum örlítinn þakklætisvott fyrir hugsjónastarf sitt í þágu skólanna og íslenskunnar gegnum árin.
Mynd 1 Sigurvegarar
Mynd 2 Sigurvegarar og formaður dómnefndar