Nei, nú lýgurðu ...
Þannig svara flestir þegar lýst er hinu einstaka og frábæra veðurlagi á Skagaströnd. Héðan í frá verður það óhrekjanleg staðreynd að veðrinu verður ekki lýst nema eins og það er í raun og veru. Þetta helgast af því að ný og fullkomin veðurstöð hefur verið sett upp við Skagastrandarhöfn.
Um er að ræða sjálfvirka veðurathugunarstöð frá fyrirtækinu M&T ehf. Stöðin nemur hitastig, vindstyrk, vindátt, vindhviður og loftþrýsting. Hún mælir einnig sjávarhæð og birtir flóðatöflu.
Á forsíðu vefsíðu sveitarfélagsins er blár reitur vinstra megin og með því að velja hann má komast að því hvernig veðrið á Skagaströnd er hverju sinni og jafnvel skoða það aftur í tímann.
... og það er alveg dagsatt.