Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur að vanda laugardaginn 5. júní og verður með nokkuð hefðbundnu sniði.
Skrúðganga leggur af stað frá höfninni kl. 10:30 og er gengið til kirkju og þar hefst sjómannamessa kl. 11:00. Kór sjómanna sér um allan söng við athöfnina og herma fréttir að þetta verði allt saman með léttu yfirbragði í tilefni dagsins.
Skemmtisigling verður auðvitað á sínum stað og hefst hún kl 13:15. Allir eru hvattir til að mæta og fá sér hressandi siglingu með einum af þeim fjölmörgu bátum sem í boði verða.
Að skemmtisiglingu lokinni hefst dagskrá hátíðarhaldana með fallbyssuskoti líkt og gert var á síðasta sjómannadegi. Að því búnu er kappróður og því næst leikir á plani.
Verður margt í boði og má þar nefna kappleiki, þrautir og dans ásamt því að heiðraðir verða tveir sjómenn.
Sjoppan á planinu verður að sjálfsögðu á sínum stað fyrir þá sem ekki geta beðið eftir að kaffisalan opni kl. 15:30 í félagsheimilinu Fellsborg. Kaffið kostar 1000 kr. fyrir fullorðin en 800 fyrir börn og eldriborgara.
Ungur listamaður að nafni Þórður Indriði Björnsson verður með sýningu á myndum unnum í Photoshop á meðan á kaffisölu stendur.
Rúsínan í pylsuendanum er svo auðvitað stórdansleikur um kvöldið í Fellsborg með Matta og Draugabönunum. Þar verður án efa dúndrandi stuð fram eftir nóttu.
Aðgangseyrir er 2500 kr. og aldurstakmark 16 ár.
Björgunarsveitin Strönd óskar sjómönnum til hamingju með daginn og vonar að allir skemmti sér sem best á þessum hátíðisdegi.