Þetta er dagurinn. Já, dagurinn sem þetta allt byrjar á. Á Skagagströnd er sól og rjómalogn og sextán stiga hiti og undirbúningur fyrir Kántrýdaga sem hefjast á morgun er á fullu.
Út um allan bæ er fólk að störfum. Við liggur stríði á milli gatna. Allir vilja skreyta sína götu sem best og helst miklu meir og betur en nágrannarnir. Og í gærkvöldi var línan lögð. Íbúar á Suðurvegi byrjuðu að skreyta. Sunnuvegurinn vildi ekki láta sitt eftir liggja og marglitar veifur skreyta Fellsbrautina.
Í miðbænum er verið að reisa hátíðartjaldið. Þar ganga vörpulegir kallar um völl, betir að ofan og hnykla vöðvana. Fjöldi kvenna hefur lagt leið sína um svæðið og segist vera að fylgjast með framkvæmdum.
En framkvæmdirnar þurfa ekki alltaf að vera stórkostlegar þó árangurinn af hinu smáa sé frábær. Borðar prýða allar hurðir á Suðurveginu, á Hólabrautinni er stór borði og þangað eru allir boðnir velkomnir.
Og mannlífið hefur tekið breytingum. Spenna er í loftinu og hamarhögg og hlátrasköll bergmála um bæinn. Börnin hlaupa til og frá og segjast vera að aðstoða, gægjast yfir í næstu götur og njósna um það sem þar er að gerast.
Hallbjörn kúreki Hjartarson gengur heimspekilegur um götur og spáir í Kántrýdaga og honum hugast áreiðanlega vel það sem hann sér.