Vikulangri Hornstrandaferð Skagstrendinga lauk í gær „... og allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó.“ Sautján manns tóku þátt og þar af tvö börn. Hópurinn gekk á fjöll, um björg og á jökul og naut einstakrar veðurblíðu svo að segja allan tímann.
Ferðin hófst í Norðurfirði á Ströndum miðvikudaginn 21. júlí. Þaðan var siglt í glampandi sólskini og norðaustan andvara í Hornvík, verður sem hélt sér nokuð óbreytt alla ferðina.
Í Hornvík var komið rétt fyrir hádegi og því um fátt annað að ræða en að koma upp tjaldbúðum og halda síðan í göngu. Hornbjarg freistar allra og var því fyrst gengið út með víkinni og upp á Hnúkinn, fremsta hluta bjargsins. Síðan var gengið því sem næst með bjargbrún inn að tindunum Jörundi og Kálfatindu og aftur inn að tjaldbúðunum við Höfn.
Daginn eftir var gengið inn í Hvanndal við Hælavíkurbjarg. Þar er hinn frægi Langikambur, mjór berggangur sem gengur langt út í sjó rétt eins og bryggja.
Reykjarfjörður er stórkostlegur staður, ekki aðeins fallegur frá náttúrunnar hendi, heldur hefur þar lengi verið rekin ferðaþjónusta. Árið 1931 var byggð sundlaug í Reykjarfirði því eins og nafnið bendir til er jarðhiti í firðinum. Síðar var hún endurnýjuð og nú er þarna fyrirtaks aðstaða fyrir ferðamenn sem gönguglaðir Skagtrendingar nýttu sér óspart.
Í Reykjarfirði var dvalið í fjóra daga. Gengið var á Geirhólma, Þaralátursnes, farið á Drangajökul og gengið á Hljóðabungu og Hrolleifsborg.
Sólbrenndir og kátir komu ferðafélagarnir til baka í Norðurfjörð mánudaginn 26. júlí. Flestur hefðu getað hugsað sér að vera lengur á Hornströndum en hlökkuðu þó til að aka suður Strandasýslu enda landslaga óvíða fegurra og tilkomumeira.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í ferðinni. Smella þarf tivsvar á mynd til að fá hana stærri.
- Efsta myndin er tekin á Geirhólma (Geirólfsgnúpi) og eru Drangaskörð í baksýn. Frá vinstri talið: Guðrún Pálsdóttir, Ólafur Bernódusson, Halldór Gunnar Ólafsson, Lára Guðmundsdóttir, Gunnar Svanlaugsson, Lárus Ægir Guðmundssonn, Amy Ósk Ómarsdóttir, Steindór R. Haraldsson, Guðbjörg Gylfadóttir, Gylfi Sigurðsson, Jóney Gylfadóttir, Sigurjón Atli Sigurðsson, Haraldur Max og Sigurður Sigurðarson.
- Önnur myndin er tekin síðla kvölds á Drangajökli. Jöklafararnir eru frá vinstri: Jóney Gylfadóttir, Amy Ósk Ómarsdóttir, Lára Guðmundsdóttir, Gunnar Svanlaugsson og Halldór Gunnar Ólafsson er lengst til hægri.
- Á þriðju myndinni brýtur stjórnandi ferðrinnar Lárus Ægir Guðmundsson strauminn í Reykjafjarðarósnum og á eftir fylgja Guðbjörg og Jóney Gylfadætur og greina má garpinn Gylfa Sigurðsson með skýluklút á höfði.
- Fjórða myndin er tekin í Atlaskarði.Þar matast Haraldur Max og handan Hornvíkur er tilkomumikið landslagið á Hornbjargi, Miðfell, Jörundur og Kálfatindar.
- Neðsta myndin er tekin neðst á Langakambi við Hvanndal.