Skíðaferð UMF Fram til Akureyrar sumardaginn fyrsta 2006

Það voru þreyttir, rjóðir, sællegir en fyrst og fremst ánægðir Skagstrendingar sem renndu inn í bæinn að kvöldi sumardagsins fyrsta.

            Ungmennafélagið Fram hefur staðið fyrir skíðaferðum í Tindastól á föstudögum nú eftir áramót. Þátttaka barna og foreldra í þeim ferðum hefur verið mjög góð og raunar framar öllum vonum. Í fyrstu ferðina fóru 50 einstaklingar en að jafnaði hafa um 30 krakkar farið á hverjum föstudegi. Í kjölfar þess var ákveðið að ljúka tímabilinu með því að efna til fjölskylduferðar í Hlíðarfjall á sumardaginn fyrsta, kíkja á Andrésar Andar leika og hafa gaman.

Í stuttu máli sagt heppnaðist ferðin frábærlega. Farið var af stað snemma morguns með 38 Skagstrendinga, fullorðna og börn, og ekið sem leið liggur til Akureyrar. Þar var deginum eytt í hreint frábæru veðri og við bestu hugsanlegu aðstæður til skíðaiðkunar sem í boði eru á Íslandi í dag. Fólk renndi sér frá kl 10:00 til 17:00  og voru okkar krakkar síðust úr fjallinu. Eftir það var farið á pizzuhlaðborð á Greifanum og síðan ekið heim í heiðardalinn. Var heimferðin með eindæmum róleg þar sem flestir sváfu á sínu sæla eyra eftir frábæran dag. Myndirnar tala sínu máli. 

 

Að lokum vill félagið koma á framfæri þökkum til eftirfarandi aðila fyrir veittan stuðning:

 

Höfðahreppur

Vífilfell

Íslensk dreifing (Myllan og Kexsmiðjan)

Mjólkursamlagið á Blönduósi

Sölufélagið á Blönduósi

 

            F.h UMF Fram

                        Halldór, Róbert og Elva