Skólaferðalag nemenda 9. og 10. bekkjar

Rétt fyrir miðnætti þann 20. maí síðast liðinn lögðu nemendur 9. og 10. bekkja ásamt Elvu og Giggu af stað í langþráð skólaferðalag og var ferðinni heitið til Kaupmannahafnar. Keyrt var sem leið lá beina leið til Keflavíkur og þaðan var svo farið í loftið eldsnemma að morgni næsta dags. Kaupmannahöfn tók á móti okkur með glampandi sól og hita. Þegar búið var að koma sér fyrir á hótelinu var lagt af stað á vit ævintýranna og var deginum eytt í að næra sig, borða ís, labba gegnum miðborgina og að fara í rúmlega klukkustundar siglingu um síkin. Í siglingunni sáu þau nokkur af helstu kennileitum borgarinnar, svo sem Amilienborg, Marmarakirkjuna,Litlu hafmeyjuna, Óperuna, Svarta demantinn, Kastellet-virkið, Christaniu, Íslandsbryggju og fleiri fallegar byggingar. Einnig vakti athygli þeirra allir Danirnir sem sátu og nutu lífsins, lágu í sólbaði meðfram síkjunum eða syntu í sjónum. Eftir siglinguna var komin þreyta í mannskapinn, enda byrjaði dagurinn snemma eftir svefnlitla nótt. Á hótelinu var fínasta innisundlaug og því var lokaorkunni eytt þar fyrir svefn.

Dagur tvö tók jafnvel á móti okkur veðurfarslega séð, sól og blíða. Dagurinn byrjaði á staðgóðum morgunverði á hótelinu og síðan var lagt í hann. Fyrsta stopp var Rundetårn eða Sívali turninn. Turninn er tæplega 35 metra hár, frá 17. öld. Við gerðum okkur “lítið” fyrir og skunduðum upp á topp þar sem útsýni er yfir alla borgina. Turninn var áður fyrr mikill vísinda- og rannsóknastaður sérstaklega í stjörnufræði.

Frá turninum hèldum við sem leið lá að Amalienborg þar sem við sáum vaktaskipti lífvarða konungsfjölskyldunnar. Það var mikil upplifun að sjá og ekki síður að virða fyrir sér allar byggingarnar þarna og torgið. Og þá var komið að því sem flest höfðu beðið spenntust eftir en það var að fara í Tívolí. Við gengum því um Nyhavn niður Strikið að Rådhuspladsen og þaðan í Tivoligarðinn en þangað vorum við mætt um kl. 14. Þar var nánast hlaupið milli tækja, mikið sprellað, hlegið og sum sigruðu sjálfa sig margoft í hinum hrikalegustu tækjum. Var það svo að okkur var nánast sópað út með ruslinu þegar garðurinn lokaði kl 22:00. Það var þreyttur og útitekinn hópur sem nánast skreið inn á hótel eftir 13 klukkustunda útiveru og u.þ.b. 27.000 skref samkvæmt skrefamælum.

Dagur þrjú byrjaði einnig á vel útilátnum morgunverði eftir góðan en mislangan svefn. Síðan var skundað út í daginn og haldið í dýragarðinn. Við vorum ekki fyrr komin inn um hliðið en það byrjaði að hellirigna. Eftir að allir voru búnir að kaupa sér einnota regnslár hætti rigningin. Í dýragarðinum fengu allir að rölta um og skoða eins og hver og einn vildi þau dýr sem vöktu athygli. Var það svo að lítill fílsungi og pandabjörn voru þau dýr sem stálu senunni ásamt Tasmaníudjöflinum. Við vorum síðan komin aftur til baka á hótelið um kaffileytið og eftir stutt stopp var haldið í verslunarmiðstöð sem sumir voru búnir að bíða lengi eftir. Það voru dauðlúnir unglingar sem mættu aftur upp á hótel eftir góðan verslunartúr, svo lúnir að enginn nennti út aftur til þess að borða. Því var Nettóverslun sem var beint á móti hótelinu látin duga og við tók síðan gjafaleikur sem kennararnir voru búnir að skipuleggja og hrepptu allir einhverja gjöf eða gjafir.

Enn og aftur bauð Kaupmannahöfn upp á sól og sælu á degi fjögur. Dagurinn var tekinn snemma og var eins og hinir dagarnir skipulagður að óskum krakkanna. Fyrstu tvö stopp dagsins voru á söfnin The Tube og Museum of Illusions sem bæði eru nokkurs konar upplifunar- og sjónhverfingasöfn. Þessi söfn stóðu algerlega undir væntingum og skemmtu allir sér konunglega. Eftir það fengu krakkarnir smá frjálsan tíma til að rölta um Strikið og upplifa mannlífið, fá sér eitthvað gott í gogginn og sleikja sólina.

Eftir það var farið heim á hótel og græjað sig fyrir strandarferð og sjóböð. Amager Strandpark var rétt við hótelið og var gaman fyrir þau að virða fyrir sér mannlífið þar, umhverfið og náttúruna, horfa yfir til Svíþjóðar og Eyrarsundsbrúna. Þeir hörðustu skelltu sér í sjóinn og syntu um og stukku jafnvel nokkrar ferðir af hæsta stökkpallinum sem þarna var. Fór það svo að þeir allra hörðustu voru vel á þriðja tíma að leika sér á ströndinni, sjónum og sólbaði.

Um kvöldið skelltum við okkur aftur inn í miðborgina þar sem við skiptum liði, sumir fóru á hamborgarastað og aðrir á pizzustað. Og þá var komið að því að pakka niður og undirbúa heimferð morguninn eftir.

Það voru þreyttir en gríðarlega ánægðir nemendur og kennarar sem lentu á Íslandi um miðjan dag þann 25. maí. Voru öll sammála um að þetta hafi verið frábær ferð sem mun lifa lengi í minningunni. Mörg voru að fara í sína fyrstu borgarferð erlendis og því margt lærdómsríkt og athyglisvert sem bar fyrir augu. Ekki var síður lærdómsríkt að spreyta sig á dönskunni (og enskunni þegar danskan dugði ekki til) og reyna að bjarga sér hvort heldur við að versla, panta mat, tala við skvísurnar eða sætisfélagann í Metro. Allir sýndu sínar bestu hliðar og nutu þess að vera saman.

Nemendur 9. og 10. bekkja þakka öllum þeim sem styrktu þau í fjáröflunum í vetur kærlega fyrir stuðninginn. Án ykkar stuðnings hefði þessi ferð ekki verið farin.

Frétt á heimasíðu Höfðaskóla, smella hér