Hin árlega skötuveisla var haldin í Fellsborg í hádeginu á Þorláksdag. Að vanda var fjölmenni og biðröð eftir að komast í hinar kæstu krásir. Togarsjómenn af Arnari og Örvari stóðu eins og fyrr glaðbeittir, matreiddu og báru fram kæsta skötu, kartöflur og rúgbrauð. Á eftir var öllum boðið upp á kaffi og konfekt. Skötuveislan var sem fyrr öllum opin og í boði sjómanna og útgerðar. Hún hefur skapað sterka og skemmtilega hefð sem fæstir vildu vera án. Skatan er auðvitað mjög sérstakur réttur og ekki fyrir alla en þeim hefur þó fjölgað jafnt og þétt sem gera hana að rétti dagsins á Þorláksmessu.