Skrifstofa atvinnuleysistrygginga opnuð á Skagaströnd

Skrifstofa atvinnuleysistrygginga var opnuð formlega á Skagaströnd á föstudag. Sex nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til skrifstofunnar en yfirmaður hennar er Líney Árnadóttir. Skrifstofan annast greiðslur atvinnuleysistrygginga en þjónusta við umsækjendur er sem fyrr hjá þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar í hverju umdæmi.

Það var ákvörðun Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, að umsýsla atvinnuleysistrygginga yrði á Skagaströnd. Magnús ávarpaði viðstadda við formlega opnun skrifstofunnar og sagði það vera gleðiefni að fá tækifæri til að fjölga störfum á landsbyggðinni og renna styrkari stoðum undir atvinnulífið þar. Æskilegt væri að opinberar stofnanir staðsettu sem kostur væri ný verkefni afmarkaðra skipulagseininga á landsbyggðinni.

Reiknistofa Atvinnuleysistryggingasjóðs er til húsa að Túnbraut 1-3 á Skagaströnd. Símanúmer þar er 582-4900, faxnúmer 582-4920 og netfang postur@gs.vmst.is.

Heimild: mbl.is