Sumarið er tími úti- og bæjarhátíða á Íslandi. Við ferðumst mörg hornanna á milli til þess að njóta landsins gæða og gestrisni landsbyggðarinnar. Stærstu hátíðarnar standa yfir venju samkvæmt um verslunarmannahelgina, sem markar í hugum margra lok ferðarsumarsins. En í sveitarfélaginu Skagaströnd, er ár hvert haldin merk hátíð, sem á að höfða til þeirra sem vilja framlengja ferðasumarið um ögn. En sú hátíð er hin margrómaða hátíð, Kántrýdagar.
Þessi menningarhátíð er afsprengi Kántrýhátíðarinnar sem haldin var um verslunnarmannahelgar hér um árin. Á mjög skömmum tíma varð sú hátíð líkt og flestir, nema fáeinir Vestmannaeyjingar muna, sú allra stærsta á landinu. Þá lögðu mörg þúsund Íslendingar leið sína til Skagastrandar til að njóta helgarinnar í vöggu kántrýsins á Íslandi. Seinna var hátíðin svo færð fram í miðjan ágúst, til að reyna undirstrika hvað þessi hátíð á að ganga út á, þ.e. hátíð fyrir fjölskylduna og unnendur kántrýsins.
Hátíðin sækir uppruna sinn að sjálfsögðu til Kántrýkóngsins Hallbjörns Hjartarsonar, sem hefur eytt ævinni í að kynna kántrý fyrir landanum og ávallt verið bæjarfélagi sínu til mikils sóma. En fyrir utan alla tónlistina reisti hann Kántrýbæ þar sem nú er rekið veitingahús og hýsir útvarp Kántrýkóngsins, Útvarp Kántrýbæ.
Hátíðin hefst venju samkvæmt þegar skotið er úr fallbyssunni á föstudag. Fá bæjarfélög, eru að sögn kunnugra, svo vel vopnum búin. Þegar hátíðin er hafin taka við ótal mismunandi dagskrárliðir, sem spanna allt frá námskeiðum í töfrabrögðum fyrir yngri kynslóðina til varðeldar fyrir alla fjölskylduna. Hvert kvöld er svo að sjálfsögðu spilað fyrir dansi fyrir eldri kynslóðina.
Aðstæður fyrir ferðamenn eru til fyrirmyndar og gestrisni heimamanna í fyrirrúmi, en í bæjarfélaginu er rekið fyrsta flokks tjaldstæði fyrir hvers kyns gistikosti. Fyrir kylfingana er aðeins tíu mínútna keyrsla í Háagerðisvöll, sem er „best geymda leyndarmál kylfinga á Íslandi“ skv. bókinni Golfhringir á Íslandi eftir Edwin Rögnvaldsson.
Rúsínan í pysluendanum er svo að sjálfsögðu hin fræga gospelmessa kirkjukórs Hólaneskirkju undir stjórn Óskars Einarssonar á sunnudagsmorgun. En þangað sækja ótal margir unnendur gospels og kóratónlistar innblástur hvert ár í hátíðartjaldinu.
Þungamiðjan og það sem allt snýst um er að sjálfsögðu kántrýið. Hvergi er betra að sleppa kúrekanum í sjálfum sér lausum en í heimabæ kántrýsins. Enginn er svo stirðbusalegur að hann hökti ekki aðeins í takt þegar línudansinn brestur á undir ávanabindandi takti Willie Nelson og Hallbjörns Hjartar. Því það er hálfopinber staðreynd, að það er smá kántrý í okkur öllum.
Ferðasumarið er langt frá því búið og þeir sem vilja skella sér á eina útihátíð í viðbót í vinalegu og afslöppuðu andrúmslofti, ættu ekki að láta Kántrýdagana fram hjá sér fara. Það er þó ráðlegt fyrir gesti að skilja indíána klæðin eftir heima, a.m.k meðan innfæddir eru að brúka fallbyssuna.
Birtist fyrst á Deiglan.com