Dagsbirtan minnkar nú með hverjum deginum sem líður. Líklega þýðir það að nú er komið haust. Veðrið leikur þó við Skagstrendinga. Hlýtt er í lofti og sólin skín nær því upp á hvern einasta dag. Egu að síður sölna laufin á trjánum, lyngið í Borginni verður rauðleitt og skuggar leika um hlíðar.
Hásjávað er þessa dagana, að minnsta kosti í Skagastrandarhöfn. Mikill sjór þýðir væntanlega meiri fiskur ... og minna land.
Meðfylgjandi myndir voru teknar sólríkan fimmtudagsmorgun þegar hús og bátar brostu við upprennandi sól.
Ekki er lengur spáð miðsumarshita á laugardaginn, þar brást Veðurstofa Íslands Skagstrendingum. Suðlægar áttir munu þó gæla við heimamenn og færa okkur áframhaldandi hlýindi yfir helgina og fram í næstu viku.