Kirkjukór Hólaneskirkju er að fara af stað með metnaðarfullt verkefni sem hann vill bjóða söngfólki í Skagafirði og Húnavatnssýslum að taka þátt í. Um er að ræða gospeltónleika undir stjórn Óskars Einarssonar , ásamt hljómsveit, sem verða haldnir á þremur stöðum í sýslunum helgina 22. til 24. október n.k.
Kirkjukór Hólaneskirkju hefur um árabil notið leiðsagnar hins margrómaða gospelkóngs Íslands, Óskars Einarssonar, við flutning gospeltónlistar. Upphaf samstarfs kórsins og Óskars má rekja aftur til ársins 1999 en þá kom Óskar til Skagastrandar og hélt sitt allra fyrsta „gospelnámskeið“. Segja má að námskeiðið hafi slegið algerlega í gegn því síðan þá hefur Óskar farið vítt og breitt um Ísland og haldið merkjum gospeltónlistarinnar á lofti með því að miðla þekkingu sinni til kóra og sönghópa.
Kórfélagar hafa nú ákveðið að fá Óskar Einarsson ásamt hljómsveit og gestasöngvurum í lið með sér til þess að halda gospeltónleika á Skagaströnd, í Skagafirði og á Hvammstanga. Æfð verða upp 15-17 lög og þau flutt undir stjórn Óskars fyrir Húnvetninga og Skagfirðinga. Verkefnið er hugsað sem eins konar uppskeruhátíð eftir námskeiðahald undanfarinna ára.
Hér með er kórfólki, ungu sem öldnu, úr Skagafirði og Húnavatnssýslum boðið að taka þátt í verkefninu.
Tónleikarnir verða haldnir helgina 22.-24. október 2010 en æfingar hefjast á næstunni.
Verkefnið hefur hlotið styrki frá Menningarráði Norðurlands vestra og Minningarsjóði um hjónin frá Garði og Vindhæli
Áhugasamir hafi samband við Sigríði í síma 820-2644 eða Halldór í síma 896-7977.