Menningarfélagið Spákonuarfur hefur fengið afhentan gamla samkomuhúsbraggan fyrir starfsemi sína. Bragginn sem í daglegu tali hefur verið kallaður Tunnan hefur um árabil hýst áhaldahús bæjarins. Ætlunin er að félagið flytji starfsemi sína þangað og þar verði Þórdísarstofa, spástofa og söluaðstaða.
Bragginn eða Tunnan er eins og nafnið og útlitið bendir til herbraggi byggður með hefðbundnu sniði slíkra bragga. Hann er 22,1 m x 6,4 m eða 141,4 fm byggður á steyptri undirstöðu upphaflega með trégólfi og litlu leiksviði í öðrum enda en anddyri og klefa fyrir kvikmyndasýningarvélar í hinum endanum.
Í áratugi var húsið miðstöð félagslífs á Skagaströnd. Þar voru lengi kvikmyndasýningar, haldnir voru margvíslegir fundir og samkomur og þar fóru fram skemmtanir eins og þorrablót, afmælisveislur og svo framvegis.
Að utan hefur Bragginn nú verið gerður upp í upprunalegri mynd enda eins og áður sagði ætlunin að endurvekja menningarhlutverk hans. Hann stendur á þeim reit sem sveitarfélagið hefur markað undir menningar- og safnastarfsemi.
Á síðasta ári voru þak og veggir einangraðir og ytra byrði hússins endurnýjað að undarskildum vesturstandi, en þar er inngangurinn í húsið.
Samkomulag er um það milli sveitarfélagsins og Spákonuarfs að leitast verði við að virða í grundvallaratriðum form og útlit innanhússklæðninga í húsinu að svo mikluu leyti sem það er gerlegt vegna fyrirhugaðrar stafsemi.
Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri, afhenti Menningarfélaginu Spákonuarfi húsið föstudaginn 22. júní og fyrir hönd félagsins tóku við því þau Sigrún Lárusdóttir, Dagný M. Sigmarsdóttir og Lárus Ægir Guðmundsson.