Unglingadeildin er óðum að spjaldvæðast og nú er svo komið að flestir unglinganna koma í skólann með sínar eigin spjaldtölvur. Foreldrafélag skólans ásamt sveitarstjórn Skagastrandar tóku þá ákvörðun að styrkja nemendur um 50% af kaupvirði spjaldtölvu (að hámarki 50.000) og varð sú ákvörðun til þess að flestir nemendur hafa nú eignast tæki. Draumur okkar er að færa spjaldtölvuvæðingu niður á miðstig en spjaldtölvurnar sem voru keyptar inn í unglingadeild í fyrra eru nú flestar komnar inn á miðstig.
Kennarar eru vel meðvitaðir um að spjaldtölva ein og sér bætir ekki námsárangur. Hún er hins vegar eitt tæki af mörgum í beitingu fjölbreyttra kennsluhátta og í því að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda. Kennarar hafa verið duglegir við að nýta þessa nýju tækni og fylgjast með því sem er að gerast í skólum landsins á þessu sviði. Fyrir stuttu fór hópur kennara til Akureyrar og sótti þar menntasmiðju um notkun spjaldtölvu í kennslu. Einnig fóru nokkrir kennarar í Borgarnes til að hlýða á Ingvar Sigurgeirsson þar sem hann fjallaði um teymiskennslu og fjölbreytta kennsluhætti. Stefnt er að því að fá hann til að koma til okkar í Höfðaskóla og vera með námskeið um þessa þætti kennsluhátta.
Fyrir stuttu tóku unglingarnir sig til og kenndu yngsta stiginu á ýmis kennsluforrit (,,öpp“) í stærðfræði. Þetta gaf mjög góða raun og allir kátir og glaðir eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Vera Ósk Valgarðsdóttir