Spurningakeppnin „Drekktu betur“

Guðbjörg Ólafsdóttir og Finnur Kristinsson sigruðu í spurningakeppninni „Drekktu betur“ í Kántrýbæ. Tæplega sextíu manns mættu og skemmtu sér hið besta enda spurningarnar frekar léttar.

 

Mjótt var á mununum í keppninni. Guðbjörg og Finnur fengu 23 stig en tvö önnur lið komu þétt á hæla þeirra með 22 stig. Bjórspurningin taldist líklega allt of létt. því henni svöruðu líklega þriðjungur liða rétt og í kjölfarið varð mikil örtröð á barnum enda bjórglas í verðlaun. 


Keppnin þótti ágæt skemmtun og þátttakendur voru allir vel með á nótunum og létu til dæmis stjórnanda heyra það óþvegið þegar hann hélt því fram að KR væri Íslandsmeistari kvenna í knattspyrnu. Yfirleitt er sá sem spyr bæði dómari og alvaldur og þýðir ekkert að tjónka við hann jafnvel þó hann hafi sannarlega rangt fyrir sér. Í þetta skipti sá hann hins vegar að sér og var ljúfur og góður það sem eftir lifði leiks þrátt fyrir framíköll og glósur þátttakenda.

 

Spurningar í keppninni voru þrjátíu og var keppt í tveggja manna liðum. Gera má ráð fyrir að það taki rétt tæplega tvo tíma að spyrja spurninganna og fara yfir svörin, en hluti af leiknum er að fara yfir svör annarra. 


Næsta keppni verður föstudaginn 10. október og stjórnandi verður þá Ólafía Lárusdóttir, starfsmaður BioPol ehf. á Skagaströnd.