Stærðfræði undir berum himni

Námsefni í útikennslu

 

 

Stærðfræðikennarar Húnavatnssýslna voru boðaðir til fræðslufundar í Grunnskólann á Blönduósi þriðjudaginn 8. nóvember. 

Stærðfræði undir berum himni var verkefni dagsins og voru ýmis verkefni  fyrir nemendur 1. – 7. bekkja kynnt fyrir þátttakendum. Miðað er við að verkefnin séu unnin utandyra.

 

Þóra Rósa Geirsdóttir, sérfræðingur hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Ingileif Ástvaldsdóttir, skólastjóri Þelamerkurskóla voru kennarar á námskeiðinu.

 

Námsefnið er norskt og hafa leiðbeinendur þýtt og staðfært bækurnar.

 

Fyrir tveimur árum komu út verkefnabækur fyrir yngsta stig grunnskólans og nú í haust komu út bækurnar fyrir miðstig grunnskólans.

Bækurnar fyrir yngsta stigið eru þrjár og fjallar hver þeirra um afmarkað viðfangsefni út frá inntaki stærðfræðinnar: Mælingar, Rúmfræði og Tölur og tölfræði.

 

Bækurnar fyrir miðstigið eru fjórar: Mælingar, Rúmfræði, Tölfræði og líkindi og Tölur og algebra.

 

Öll verkefnin í bókunum eru tengd aðferðamarkmiðum aðalnámskrár.

 

Námskeiðið var á vegum Fræðsluskrifstofu A- Hún.

Myndir: Þátttakendur og  Leiðbeinandi.