Undanfarna mánuði hafa staðið yfir framkvæmdir í gamla samkomuhúsinu (Tunnunni) á Skagaströnd á vegum Spákonuarfs, en félagið eignaðist húsnæðið nú í sumar.
Þegar er búið að einangra veggi og loft og er langt komið að klæða veggi. Í framhaldinu verða gólf, gólfefni ,raflagnir og vatnslagnir endurnýjaðar. Tveir iðnaðarmenn hafa unnið við verkið og bætast fleiri við á næstunni.
Hönnun leikgerðar og innra skipulags er unnin í samráði við Ernst og Ágústu Bachman sem stofnuðu og starfrækja Sögusafnið/leikmyndagerð en þau eru einnig eigendur og höfundar að Sögusafnininu í Perlunni.
Samstarfið við Ágústu og Ernst hefur staðið um nokkurn tíma en á vordögum afhentu þau Spákonuarfi afsteypu af Þórdísi spákonu sem verður hluti af sýningunni.
Áformað er að opna Spákonuhofið og Þórdísarstofu næsta sumar.
Síðastliðið sumar sá Spákonuarfur um sýningarhald í Árnesi. Aðsókn var góð gestir vel á annað þúsund. Jafnframt því að sinna sýningarhaldi var boðið upp á spádóma og sölu á handverki.
Á Kántrýdögum í sumar varð að fjölga spákonum og tókst gott samstarf um það við Töfrakonur í Húnavatnshreppi. Enginn vafi er á að áhugi fyrir spádómum er mikill og fer vaxandi.
Þórdísargöngur á Spákonufell eru orðnar fastur liður í starfi félagsins og er áhugi manna að ganga á Spákonufellið vaxandi. Þannig hafa í ár um 180 manns ritað nafn sitt í gestabók sem staðsett er á „toppnum“.
Spákonuarfur áformar í vetur að gefa út sögu Þórdís spákonu sem rituð er af þeim spákonum Sigrúnu Lárusdóttir, Dagnýju M.Sigmarsdóttir og Svövu Sigurðardóttir. Sagan verður skreytt teikningum eftir Guðbrand Ægi Ásbjörnsson.