Myndlistarsýningin SOLITUDE - Landslag í umróti er sett upp af Nes listamiðstöð á Skagaströnd í samvinnu við Neues Kunsthaus Ahrenshoop og Kunstlerhaus Lukas. Þetta er samsýning listamanna frá Íslandi, Lettlandi og Þýskalandi.
Listamennirnir unnu allir út frá ljóðum skálda í löndum sínum. Þau íslensku sem listamennirnir leggja út frá eru Steinunn Sigurðardóttir og Andri Snær Magnason.
Fulltrúar Íslands á sýningunni eru Ragnhildur Stefánsdóttir, Þórdís Alda Sigurðardóttir, Hrafnhildur Sigurðardóttir og Jeannette Castioni.
Verkin á sýningunni eru afkvæmi spurninga á borð við: „Er draumastaður mannsins ennþá til, þar sem hann getur notið einveru, unaðar og hvíldar?“ og „Hvernig geta listir stuðlað að meðvitaðri umgengni við náttúruna?“
Sýningunni frá Ahrenshoop í Norðaustur Þýslandi fylgir vegleg sýningarskrá.
Opnun sýningarinnar verður laugardaginn 11. júní kl 15:00 í Gamla kaupfélaginu á Skagaströnd og framinn verður gjörningur kl. 15:30.
Sýningin er opin um helgar frá kl. 13 – 17 og virka daga eftir samkomulagi í síma 452 2816 og stendur til 30. ágúst.
Hin glæsilega myndlistarsýning er styrkt af Menningarráði Norðurlands
vestra, Fisk Seafood á Sauðárkróki og Minningarsjóði um hjónin frá Garði
og Vindhæli.