Mennta- og menningarmálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Æskulýðssjóði sem starfar samkvæmt lögum nr. 70/2007 og reglum nr. 60/2008.
Við úthlutun úr Æskulýðssjóði fyrir árið 2011 verður lögð áhersla á umsóknir frá æskulýðsfélögum og æskulýðssamtökum um verkefni er fjalla um mannréttindafræðslu og lýðræðislega þátttöku ungmenna í samfélaginu svo og samstarfsverkefni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka.
Hlutverk Æskulýðssjóðs er að styrkja eftirtalin verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka:
- Sérstök verkefni sem unnin eru fyrir börn og ungmenni og/eða með virkri þátttöku þeirra.
- Þjálfun forystufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða.
- Nýjungar og þróunarverkefni.
- Samstarfsverkefni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka.
Hvorki er heimilt að styrkja árvissa né fasta viðburði í félagsstarfi svo sem þing, mót eða þess háttar viðburði né ferðir hópa.
Mennta- og menningarmálaráðherra úthlutar styrkjum úr Æskulýðssjóði að fengnum tillögum stjórnar Æskulýðssjóðs.
Umsóknarfrestur í Æskulýðssjóð er fjórum sinnum á ári, 1. febrúar, 1. apríl, 1. september og 1. nóvember og er umsóknarfrestur auglýstur hverju sinni.
Í umsókn til Æskulýðssjóðs skulu koma fram upplýsingar um:
- nafn æskulýðsfélags eða æskulýðssamtaka
- nafn og heimilisfang umsækjanda
- heiti, lýsing og markmið verkefnis, ásamt kostnaðar- og tímaáætlun
- áætlaðan fjölda þátttakenda
- samstarfsaðila eftir því sem við á
- kennitölu og númer bankareiknings þess er styrkurinn á að leggjast inn á ef viðkomandi hefur fengið úthlutað styrk.
Vakin er sérstök athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á umsóknavef Stjórnarráðsins á vefslóðinni https://umsokn.stjr.is/.
Nánari upplýsingar um Æskulýðssjóð veitir Valgerður Þórunn Bjarnadóttir í síma 545 9500 eða í tölvupósti á valgerdur.thorunn.bjarnadottir@mrn.is.
Umsóknarfrestur er til 1. febrúar 2011.