Sveitarstjórn samþykkir ályktanir

Á fundi sveitarstjórnar Skagastrandar þann 3. mars síðast liðinn voru eftirfarandi ályktanir samþykktar samhljóða:  
 
Sjávarútvegsmál
Sveitarstjórn Skagastrandar skorar á ríkisstjórn Íslands að falla frá hugmyndum um innköllun veiðiheimilda eða svokallaða fyrningarleið. Aldrei fyrr hefur sjávarútvegur verið þjóðinni mikilvægari og alls engin ástæða til að gera grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi við úthlutun veiðiheimilda. Stærstur hluti veiðiheimilda er í dag í höndum sjávarútvegsfyrirtækja vítt og breitt um landið, með fyrningarleið væri því gerð alvarlega atlaga að stöðu landsbyggðarinnar.  

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld staðið að breytingum á stjórnkerfi fiskveiða m.a. með úthlutun byggðakvóta og nú síðast ákvörðun um strandveiðar. Með þessum ákvörðunum hafa stjórnvöld komið til móts við ólík sjónarmið.  

Sveitarstjórn telur ekki rétt að færa veiðiheimildir úr byggðakvóta yfir í strandveiðar en á ráðuneyti sjávarútvegsmála að breyta svæðisskiptingu strandveiða m.a. með tilliti til reynslu síðasta árs.  
 
Heilbrigðismál  
Sveitarstjórn Skagastrandar mótmælir þeim mikla niðurskurði sem Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi þarf að taka á sig. Sveitarstjórn skorar á heilbrigðisráðherra að endurskoða boðaðan niðurskurð og tryggja að Heilbrigðisstofnuni fái sanngjarna meðferð í samanburði við aðrar stofnanir. Jafnframt brýnir sveitarstjórn þingmenn Norðvesturkjördæmis að standa vörð um stofnunina.  
 
Samgöngumál
Sveitarstjórn Skagastrandar mótmælir hugmyndum Vegagerðarinnar um breytta veglínu í gegnum A-Húnavatnssýslu með svokallaðri Húnavallaleið. Sveitarstjórn minnir á að að í gildandi svæðisskipulagi A-Húnavatnssýslu 2004-2016 er ekki gert ráð fyrir nýjum stofnvegi á þessu svæði.  
 
Matjurtagarðar
Sveitarstjórn samþykkir að koma upp aðstöðu innan sveitarfélagsins fyrir matjurtagarða. Sveitarstjóra er falið að útfæra hugmyndir um staðsetningu og tilhögun og leggja fyrir næsta fund sveitarstjórnar.