Í Nesi listamiðstöð á Skagastönd dvelja nú fimmtán listamenn. Í tilefni Kántrýdaga ætla þeir að bjóða fólki að líta inn frá kl 16:00 til 18:00 á laugardaginn og sjá hvað þeir eru að vinna að.
Á sama tíma mun Cynthia Delaney opna ljósmyndasýningu í Kælinum í listamiðstöðinni. Hún hefur undanfarið ljósmyndað víðáttuna, einangrunina og hina einstöku kúrekamenningu í norðausturhluta Nevada.
Kl. 14:00 sama dag ætla þær Liz, Pat og Jess að bjóða fólki að taka þátt í listsköpun þar sem þær munu blanda saman sjónlist, hljóðlist og ljóðlist. Fólk er hvatt til að kíkja á þær og taka með sér pensla, pappír eða sögur.
Sýningin SOLITUDE - Landslag í umróti verður opin á föstudaginn kl. 17:00-20:00 og á laugardag og sunnudag frá kl. 13:00-16:00 í nýja sýningarsalnum Gamla kaupfélagið á Skagaströnd. Myndlistarsýningin, sem er sett upp af Nesi Listamiðstöð á Skagaströnd í samvinnu við Neues Kunsthaus Ahrenshoop og Kunstlerhaus Lukas, er samsýning listamanna frá Íslandi, Lettlandi og Þýskalandi.
Sýningin öll er unnin útfrá ljóðum skálda frá þessum löndum og íslensku skáldin sem listamennirnir leggja út frá eru Steinunn Sigurðardóttir og Andri Snær Magnason. Fulltrúar Íslands á sýningunni eru Ragnhildur Stefánsdóttir, Þórdís Alda Sigurðardóttir, Hrafnhildur Sigurðardóttir og Jeannette Castioni. Þessi glæsilega myndlistarsýning er styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra, Fisk Seafood á Sauðárkróki og Minningarsjóði um hjónin frá Garði og Vindhæli.
Gleymda herbergið er samsýning tveggja listamanna sem unnið hafa ílistamiðstöðinni síðustu tvo mánuði . Þær Hanneriina Moisseinen frá Finnlandi og Kreh Mellick frá Bandaríkjunum umbreyttu kjallara, gleymdu herbergi, Gamla Kaupfélagsins yfir í hið áhugaverðasta sýningarrými og munu sýna þar verk sín alla helgina milli kl 13:00-17:00. Sýningin stendur til 23. ágúst.
Mánudaginn 17. ágúst mun Ljósmyndarinn Cynthia Delaney, bjóða börnum og unglingum Skagastrandar upp á frítt ljósmyndanámskeið. Krakkarnir koma þá með sínar eigin vélar og þau fara saman um bæinn og taka myndir.