Sýningin Kona á skjön

 

 

Þann 3. júní kl. 14 verður sýningin Kona á skjön opnuð á Sauðárkróki.  Sýningin fjallar um ævi og störf Guðrúnar Árnadóttur frá Lundi en rithöfundaferill hennar er sannkallað ævintýri í íslenskri bókmenntasögu. Óþekkt kona norðan úr Skagafirði verður metsöluhöfundur nánast á einni nóttu og bækurnar  tróna á toppi vinsældarlista í rúma tvo áratugi. Hún er orðin 59 ára þegar fyrsta skáldsagan kemur út, eftir það skrifar hún 27 bækur í 11 skáldverkum.

Þetta gerðist í heimi fjölda hindrana fyrir alþýðukonu sem þráði að skrifa skáldsögur. Bústörf og barnauppeldi stóðu í veginum og ritvöllurinn var að mestu karlanna. Hún var dáð af stórum hluta þjóðarinnar en raddsterkir áhrifamenn flokkuðu verk hennar með erlendum afþreyingarbókmenntum og reyfararusli.

Sýningarhöfundar eru Kristín Sigurrós Einarsdóttir leiðsögumaður og kennari og Marín Guðrún Hrafnsdóttir bókmenntafræðingur og langömmubarn Guðrúnar frá Lundi.

Sýningin verður að Aðalgötu 2 á Sauðárkróki og mun standa út júlímánuð.  Opið verður alla daga frá kl. 13-17, aðgangur er ókeypis og heitt á könnunni. Þann 3 júní n.k. eru 130 ár frá því að Guðrún fæddist.

Með von um að fjölmiðill þinn þiggi boð á opnun eða sjái sér fært að fjalla um hana veitum við fúslega nánari upplýsingar.

Marín Guðrún Hrafnsdóttir (7764599) og Kristín Sigurrós Einarsdóttir (8673164).

Tilvitnanir úr verkum Guðrúnar:

 „Fékkstu þér virkilega ekki bragð þá einu sinni þú reiðst í kaupstaðinn? Skárri er það sparsemin – mér liggur við að segja vesalmennskan.“ (Tengdadóttirin)

 „Hann var gagnfræðingur, laglegur tilhaldspiltur og lét talsvert mikið á því bera að hann væri yfir aðra hafinn. Hafði gaman af að láta útlend orð fjúka yfir þetta óupplýsta útkjálkafólk“ (Utan frá sjó)

 

Eftirtaldir styrktu sýninguna:

Samfélagssjóður Landsbankans, Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra, Samfélagssjóður Landsvirkjunar, Menningarsjóður KS, Fisk Seafood, Heilbrigðisstofnun Norðurlands,  Nýja kaffibrennslan, Landsbankinn, Lyfja, Marska hf., Sauðárkróksbakarí, Sjúkraþjálfun Sigurveigar, Sveitarfélagið Skagafjörður, Sveitarfélagið Skagaströnd, Sviðsljós og Þekkingarsetrið á Blönduósi.