Skráningu fyrir vorönn lauk nú um helgina og ljóst er að nemendum Dreifnáms í A-Hún fjölgar um sex um áramót sem verður að teljast mjög góður árangur en fyrir voru nemendur alls 13 talsins. Á vorönn hefja því 19 nemendur nám að loknu jólaleyfi.
Nýnemarnir eru ólíkir innbyrðis, þeir hafa ýmist verið í öðrum skólum nú á haustönn og eru að flytja heim eða eru að byrja nám eftir langt hlé. Einnig eru dæmi um að nemendur hafi búið á heimavist FNV og nýti nú tækifærið og haldi áfram námi í heimabyggð.
Þessi tíðindi eru sérlega gleðileg og sýna svo ekki verður um villst að dreifnám í A-Hún er að festa sig í sessi og sanna gildi sitt fyrir heimamönnum.
Þessa dagana standa svo yfir skráningar í meistaranám fyrir iðnaðarmenn, almenna hluta, sem kennt verður á vor- og haustönn 2014. Nemendur A-Hún í meistaranáminu munu nýta aðstöðu dreifnámsins að Húnabraut 4 á Blönduósi. Skráningu lýkur í meistaranámið þann 12. desember. Skráning fer fram á skrifstofu FNV í síma 455-8000.