19.08.2004
Þriðjudaginn 17. ágúst var líflegt að líta yfir
hafnarsvæðið. Verið var að landa úr Arnari HU og Örvar
HU kom inn til að taka olíu. Auk þess var talsvert
landað úr hraðfiskibátum sem hafa aflað bærilega að
undanförnu.
Togarinn Örvar heldur síðan á veiðar á ný og kemur
aftur inn til löndunar um mánaðarmótin en þá verður
skipið búið að vera á veiðum í um 38 daga. Afliabrögð
togaranna hafa gengið misjafnlega Örvar hefur einkum
verið á grálúðuveiðum og þar hefur þokkalegt verð á
afurðum bætt upp fremur dræma veiði. Í undirbúningi er
að Örvar fari í slipp í haust þar sem hann verður
hreinsaður og málaður og skut hans slegið út til að
bæta sjóhæfni skipsins.
Arnar var í fyrri hluta síðasta túr á karfaveiðum en þegar
botninn datt úr þeim fór hann í aðrar tegundir aðallega
þorsk, ýsu og ufsa. Veiðarnar gengu ágætlega og
landar hann nú um 365 tonnum af unnum afurðum sem
eru að aflaverðmæti um 68 milljónir. Umreiknað í afla
upp úr sjó er veiðin um 650 tonn og þar af úthafskarfi
um 1/3 aflans. Arnar mun síðan halda til veiða í
Barentshafi og fara til veiða í rússneskri lögsögu.
Veiðiheimildir þar eru um 750 tonn og reiknað með að
kvótinn verði tekin í einni veiðiferð.