Mikill sprengikraftur var í tundurdufli sem sprengt var á Hrafndal í gærkvöldi.
Hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson fékk tundurdufl í trollið út á Húnaflóa og kom til hafnar á Skagaströnd. Áður en skipið kom upp að bryggju hafði björgunarskipið Húnabjörg flutt sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar um borð til að gera duflið óvirkt. Rafhleðslan í duflinu var orðin ónýt en ákveðin áhætta getur fylgt tundurduflum og því er allrar varúðar gætt og duflin meðhöndluð af sérfræðingum.
Undir stjórn sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar flutti Björgunarsveitin Strönd síðan duflið upp í Hrafndal í fylgd lögreglu þar sem það var sprengt um kl 19.30. Hvellur við sprenginuna var geysimikill enda um að ræða 135 kg af TNT sprengiefni. Í kjölfar sprengingarinnar var feiknaleg höggbylgja sem skók til bifreiðar í 500 m fjarlægð.
Talið er að á stríðsárunum, fyrir rúmum 60 árum, hafi verið lögð í sjó um 120 þúsund tundurdufl í hafsvæðinu í kringum Ísland. Tundurduflabelti voru þá út af Vestfjörðum, í Faxaflóa, Hvalfirði, Eyjafirði og Seyðisfirði. Íslenskir sjómenn hafa því frá lokum seinna stríðs oft fengið dufl í veiðarfærin eða séð þau á reki.og samkvæmt upplýsingum sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar hafa um 5000 slík dufl fundist og verið eytt. Á seinni árum hafa fimm til sex dufl fundist á ári. Þó að öryggisbúnaður sé í flestum tundurduflum sem á að gera þau óvirk ef þau fljóta upp er aldrei hægt að treysta á hann. Tundurdufl geta verið virk áratugum saman. Undanfarin ár er þó fátítt að duflin springi þegar þau koma upp með veiðarfærum og eingungis þekkt eitt dæmi um það frá 1955 þegar togarinn Fylkir sökk eftir að tundurdufl sprakk á síðunni.