Meðalfjarlægð tungls og jarðar er 384.403 km og skiptir litlu hvort staðið er við fjöruborð á Skagaströnd eða efst á Spákonufelli, sem þó er 639 m hærra. Engu mætti ætla að sá sem hefði á laugardaginn verið á þessum slóðum væri í seilingarfjarlægð frá tunglinu. Það er nú í fjórða kvartil. Gott er að tvísmella á myndina, hún nýtur sín ekki nema í góðri stærð.
Tunglið fer einn hring umhverfis jörðina á u.þ.b. einum mánuði og á hverri klukkustund færist það miðað við fastastjörnunar, um 0,5° á himinhvelfingunni, eða um fjarlægð sem er u.þ.b. jöfn sýndarþvermáli þess. Tunglmyrkvi verður þegar tunglið fer inn í alskugga jarðar, þ.a jörðin skyggir á sólu frá tunglinu séð.
Sólin skín ávallt á helming tunglsins (nema í tunglmyrkvum) og þess vegna sjáum við aðeins þann hluta tunglsins. Þegar talað er um fullt tungl þýðir það að sólin skín akkúrat á þann helming tunglsins sem við sjáum frá jörðinni. Þegar sólin skín á hina hliðina er talað um nýtt tungl.
Fyrsta kvartil er þegar tunglið er að vaxa, en er ekki orðið hálft. Á öðru kvartili er það einnig vaxandi, en þá er það meira en hálft. Ef tunglið er á þriðja kvartili þýðir það að það er byrjað að minnka, en komið niður í að verða hálft tungl og loks þegar tunglið er á fjórða kvartili er það orðið minna, en helmingurinn sem lýsir og minnkar.
Sjá nánar á vefsíðunni http://is.wikipedia.org./wiki/Tunglið.