Unnið að endurbyggingu Tunnunnar

Lokið er nú við að endurnýja stærsta hluta af ytra byrði braggans sem í daglegu tali er nefndur Tunnan en var áður samkomuhús Skagastrandar. Að verkinu hefur Trésmiðja Helga Gunnarssonar ehf. unnið ásamt starfsmönnum áhaldahúss Skagastrandar.

Fyrirhugað er að gera braggann upp í upprunalegri mynd og endurvekja menningarhlutverk hans með því að tengja hann við þau verkefni sem nú eru í uppbyggingu í menningarmálum á staðnum. Bragginn stendur á þeim reit sem sveitarfélagið hefur markað undir menningar- og safnastarfsemi. Í framhaldi af endurgerð ytra byrðis hússins verður unnið að endurbótum og endurgerð innréttinga hússins.

Forsagan

Samkomuhúsbragginn var reistur á Skagaströnd árið 1945 en hann hafði áður verið notaður sem hjúkrunarskýli á Blönduósi á hernámsárunum. Bragginn var keyptur fyrir fimm þúsund krónur og honum fundinn staður við aðalgötu bæjarins. 

Hlutverk hans var að leysa úr brýnni þörf á samkomuhúsi fyrir bæjarfélagið.

Bragginn er, eins og nafnið og útlitið bendir til, herbraggi, byggður með hefðbundnu sniði slíkra bygginga. Hann er 22,1 m x 6,4 m eða 141,4 fm, byggður á steyptri undirstöðu og upphaflega með trégólfi og litlu leiksviði í öðrum enda en anddyri, salerni, fatahengi og klefa fyrir kvikmyndasýningarvélar í hinum endanum. 

Samkomustaðurinn

Þótt kaupin á setuliðsbragganum hafi verið álitin skammtímalausn á sínum tíma var hann aðalsamkomustaður Skagstrendinga um aldarfjórðung. Í honum voru, á tímabilinu 1945-1970, haldnar nær allar samkomur á staðnum og  má þar nefna: leiksýningar, kvikmyndasýningar, fundi, dansleiki, erfidrykkjur og íþróttakennslu skólans. Frá 1970 hefur hann hins vegar verið notaður til ýmissa annarra þarfa og hin síðari ár gegnt hlutverki áhaldahúss sveitarfélagsins. 

Menningarsögulegt gildi

Bragginn, Samkomuhúsið eða Tunnan eins og hann hefur ýmist verið kallaður, hefur því verið órjúfanlegur hluti byggðar og mannlífs í 64 ár og hefur þar af leiðandi mikið menningarsögulegt gildi fyrir Skagaströnd og Skagstrendinga. 

Auk þess menningargildis sem bragginn hefur fyrir Skagaströnd og Skagstrendinga er hann einn fárra uppistandandi bragga eftir sem Íslendingar tóku til annarra nota eftir að setulið breska hersins hvarf á braut í stríðslok. 

Braggar eru ekki varanlegar byggingar á nútíma mælikvarða og hafa flestir orðið ónýtir eða eru að verða það. Í raun gildir það sama um samkomuhúsbraggann á Skagaströnd en þó virðist burðargrind hússins vera það heilleg að vel gerlegt er að endurgera hann í upprunalegri mynd. Bragginn er því bæði menningarsögulegur fyrir samfélagið og einn fárra stríðsminja á þessu svæði.