Uppskera og handverk 2007 í Eyjafjarðarsveit

 

Dagana 10.-12.ágúst 2007 verður haldin hátíð sem á sér nú 15 ára langa sögu en það er Handverkshátíð á Hrafnagili.  Fáir viðburður eiga sér jafnlangan feril.  Hátíðarsvæðið er staðsett 10 km frá Akureyri svo mikill fjöldi fólks hefur gjarnan sótt hátíðina.  Setning hátíðar er 10.ágúst klukkan 10.  Opnunartími er 10-19 föstudag, laugardag og sunnudag.

 

Í fyrra tók sýningin sem þá hét “Uppskera og handverk 2006” heilmiklum breytingum og vakti það mjög jákvæða athygli.  Hún varð að skemmtilegri blöndu handverks- og fjölskylduhátíðar þar sem allir fundu eitthvað við sitt hæfi.  Sýningarsvæðið tvöfaldaðist og dæmi voru um að gestir komu alla daga hátíðarinnar því eitthvað nýtt var að gerast dag hvern.  Aðgöngumiðinn kostar 1.000.- og gildir alla helgina, það er frítt fyrir börn.  Mjög gott samstarf var haft við Fiskidaginn mikla sem er einmitt haldinn sömu helgi ár hvert.  Nú verður gengið skrefinu lengra og ýmsar nýjungar þróaðar enn frekar. 

 

Nýjungar :

·          Svokallað verksvæði vakti gífurlega athygli í fyrra og mikið af verkum voru unnin á hátíðinni.  Meðal annars var 500 kílóa risi í smíðum, rafmagnsgítar í stærðinni 4 metrar, rennismiðir að störfum, vinnsla á hornum, hnífasmíði og fleira og fleira.  Verksvæðið verður ekki minna fjölbreytt í ár.  Stór verk í smíðum og fjölbreytt vinna með alls kyns hráefni.  Að minnsta kosti eitt stórt verk er í burðarliðnum en það er mótorhjól í fullri stærð skorið í tré. Bæði innlendir og erlendir aðilar mun taka þátt í verksvæðinu.

·          Tískusýningar á skinniklæddum palli vöktu mikla athygli í fyrra og því hefur verið leitast við að fá hönnuði inn sem munu sýna verulega flotta hönnun og nýtingu á hráefni.  Það kemur ein frá Noregi, Bine Melby sjá meðfylgjandi myndir, en hún er að vinna magnaðar flíkur úr kúaskinnum.  Þessi kona mun halda fyrirlestur klukkan 15 á laugardeginum um vinnu sína við að varðveita menningarsögulega bústofna í Noregi og nýtingu á kúaskinnum.  Hún mun taka þátt í tískusýningum og vera með sýningu á hönnun sinni.

·          Krambúð verður rekin af hálfu sýningarinnar og fjöldi listamanna hafa sent muni sína í þessa listmunabúð.  Umsjónaraðili að þessu sinni er Sigríður Örvarsdóttir textílhönnuður og sér hún um uppsetningu og val á munum inn í Krambúð.  

·          Dimmuborgarjólasveinar munu líta við á leið sinni í Jólagarðinn þar sem þeir ætla að hitta fyrir Grýlu.  www.snowmagic.is  verkefnið verður á svæðinu og kynnir sig og það sem þau eru að gera.  Loðinlumpa Grýlu verður einnig frumsýnd í tengslum við hátíðina, sjá meðfylgjandi mynd.

·          Handverksmaður ársins var valinn í fyrsta skipti á hátíðinni 2006.  Ragnhildur Magnúsdóttir í Gýgjarhólskoti eða Ranka í Kotinu var valin handverksmaður ársins 2006.  Spennandi verður að sjá hver verður fyrir valinu fyrir árið 2007.  Sölubás ársins var valinn á hátíðinni 2006.  Himneskir herskarar sköruðu framúr við valið í fyrra og hlaut titilinn sölubás ársins 2006.  Verðlaunaafhendingar verða á laugardagskvöldinu ásamt því að tónleikar verða með Ljótu hálfvitunum í Tónlistarhúsinu Laugarborg klukkan 21:30.

·          Vélasýning var frábær viðbót á síðasta ári því að uppskeruhlutinn verður ekki fullbúinn nema vélar og tæki séu til sýnis á svæðinu.  Þetta kryddaði hátíðina verulega og mikil ánægja var meðal gesta með þessa nýjung.  Nú verður leitast við að sýna vélar í anda kornræktar á Íslandi, gamli tíminn mun mæta nýja tímanum á sýningarsvæðinu.

·          Dýrasýning vakti mikla athygli svo það verður endurtekið, ásamt því að Félag landnámshænsna mun koma með sýningu.  Í fyrra voru 65 fuglar sem kepptust um titilinn hæna ársins og hani ársins.  Gestir völdu fallegustu fuglana.

·          Nýjung á hátíðinni þetta árið er myndlistarsýning undir berum himni.
Gallerí Víðátta 601 hefur það að markmiði að standa fyrir myndlistarsýningum utan hefðbundinna sýningarsala hérlendis og erlendis.  Í Gallerí Víðáttu 601 verður Grálist með samsýningu en Grálist er samsýningahópur ungra myndlistamanna sem öll útskrifuðust frá Myndlistaskólanum á Akureyri vorið 2006 og 2007. Grálistahópurinn er óháður og hæfileikaríkur myndlistahópur sem sýnir list sína ýmist saman í heild, í smærri hópum eða sem einstaklingar undir nafni Grálistar.
Hópurinn vinnur í ýmsa miðla myndlistar á frjálslegan, frjóan og skapandi hátt.  Gallerí Víðátta 601 verður staðsett á útisvæði hátíðarinnar og verður með afar frumlega útstillingu.

  • Námskeið –  í tengslum við hátíðina verða eftirfarandi námskeið á dagskrá : Leðursaumur með Önnu Gunnarsdóttur, Þæfing með Valborg Mortensen, Hálmfléttingar með Doris Karlsson og Eldsmíði með Beate Stormo. 

 

Frekari upplýsingar á www.handverkshatid.is

Allar nánari upplýsingar gefur Dóróthea Jónsdóttir í síma 864-3633