Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave samkomulagið þann 9 apríl hefur hafist á Skagaströnd.
Hægt er að greiða atkvæði daglega milli kl. 10-16, eða eftir samkomulagi, hjá hreppstjóra Lárusi Ægi Guðmundssyni að Einbúastíg 2, 1. hæð til vinstri.
Hvernig fer kosning fram utan kjörfundar?
Kjósandi þarf að gera kjörstjóra grein fyrir sér með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Kennivottorð er persónuskilríki með mynd, svo sem vegabréf eða ökuskírteini.
Að þessu loknu fær kjósandi afhent kjörgögn.
Skal kjósandi svo aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái rita atkvæði sitt á kjörseðilinn og setja atkvæðið í kjörseðilsumslagið.
Kjósandinn merkir við á kjörseðli hvort hann samþykki að lög nr. 13/2011 haldi gildi sínu eða að þau eigi að falla úr gildi. Ef kjörseðill ónýtist hjá kjósanda má hann fá annan í stað hins.
Þá áritar og undirritar kjósandi fylgibréfið í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna.
Að lokum skal kjörseðilsumslagið ásamt fylgibréfinu lagt í sendiumslagið og því lokað vandlega. Umslagið skal síðan áritað til sýslumannsins, kjörstjórnarinnar eða hreppstjórans í því umdæmi þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá. Á sendiumslagið skal rita nafn kjósanda, kennitölu og lögheimili.
Kjósanda er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar oftar en einu sinni og skal þá aðeins hið síðastgreidda atkvæði tekið til greina. Utankjörfundaratkvæði telst greitt þann dag sem fylgibréfið er dagsett.
Kjósandi þarf aðstoð
Ef kjósandi skýrir kjörstjóra frá því að hann sé ekki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt eða árita og undirrita fylgibréfið sakir sjónleysis eða annarrar fötlunar, skal kjörstjóri veita honum aðstoð til þess í einrúmi, enda er hann bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Aðstoðin skal þó aðeins veitt að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Kjósandi verður sjálfur að biðja um aðstoð.
Hvernig fer með atkvæðið?
Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá þá skilur kjósandi þar eftir bréf með atkvæði sínu og skal sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa. Atkvæðakassinn skal svo innsiglaður af kjörstjóra ásamt hlutaðeigandi kjörstjórn og er umboðsmönnum lista heimilt að setja á hann innsigli sín.
Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá, þá annast og kostar hann sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.
Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá.
Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna.
Fyrirgerir utankjörfundaratkvæðagreiðsla rétti manns til að greiða atkvæði á kjördag?
Nei, kjósanda er heimilt að greiða atkvæði á kjördag þó hann hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og kemur utankjörfundaratkvæðaseðill hans þá ekki til greina við kosninguna.