Veðrið á Skagaströnd í maí

Maí var hlýr á Skagaströnd, hlýrri en allir liðnir mánuðir ársins. Engu að síður var hann kaldur. Meðalhiti mánaðarins var aðeins 4,2 gráður sem er auðvitað út í hött miðað við vorið – eða hvað? 

Lygnara var í maí en verið hefur það sem af er árin. Vindstyrkurinn var aðeins 6,1 meter á sekúndu (m/s) og í hviðum fór hann upp í 9 m/s að meðaltali.

Og hver er ástæðan fyrir köldu vori? Sumir segja syndum spilltir íbúar. Aðrir velta því fyrir sér hvort veðrið eigi bara ekki vanda til þess að vera svona á okkar „ísa köldu landi“. Sé svo skiptir syndin engu máli.

Hiti
Maí byrjaði vel og endaði á svipaðan hátt. Hlýtt var í upphafi og síðustu daga mánaðarins. Hlýjast var að meðaltali fyrri helming mánaðarins. 

Á tímabilinu 1. til 15. maí var meðalhitinn 4,9 gráður. Seinni hlutann var meðalhitinn aðeins 3,5 gráður. Það kann að virðast lítið en 1,4 gráður eru hvorki meira né minna en 34% af meðalhita mánaðarins og auðvitað munar um minna. 

Sömu sögu er að segja þegar mánuðinum er skipt í þrennt. Hlýjast er fyrstu tíu daganna. Þá er meðalhitinn 5,2 gráður. Síðan súnkar meðalhitinn niður í 3,6 gráður frá 11. til 20. maí og er eiginlega hinn sami síðustu tíu dagana, þ.e. 3,7 gráður.

Lægst fór hitin 20. maí, en þann sólarhring var hann að meðaltali 0,4 gráður. Þá lá hann að mestu í núllinu. Daginn eftir versnaði laglega í því. Þó meðaltal hitans 21. maí hafi verið 0,8 gráður voru sveiflurnar meiri. Frá miðnætti og fram undir klukkan átta ríkti frostið kalt, að mestu eins gráðu frost. Er sólar tók að gæta hlýnaði og yfir daginn og fram undir miðnætti var eins eða tveggja gráðu hiti. 

Þrátt fyrir að hitastigið í maí reyndi allt hvað tæki til að halda takti við árstíðina og eindregin vilja almennings gekk allt brösuglega. Það var svo ekki fyrr en þann 27. maí að hitinn fór yfir sjö gráðurnar samkvæmt lygilegu meðaltali. Má eiginlega segja að máttarvöldin séu eins og stjórnvöld landsins, hagsmunir þeirra og almennings fara lítt saman.

Vindgangur
Maí byrjaði vel. Lyngt var að mestu fram til 18. maí er’ann rauk upp í leiðinda hvassviðri sem entist í þrjá til sex daga. Síðustu dagana var vindur svona í kringum 10 m/s en hviðurnar voru mun hærri. Þetta hefði svo sem verið í lagi kuli og hvassvirði hefðu ekki farið saman. Fannst mörgum það óþarfi af máttarvöldunum og aftur er samlíkingin við stjórnvöld við hæfi.

Vindáttir
Og hvers vegna skyldi ný hafa verið svona kalt í maí? Látum syndir íbúanna liggja á milli hluta og einblínum frekar á vindáttir. Í ljós kemur að ráðandi vindáttir í maí komu úr áttunum frá norðri til austurs. Og þær voru kaldar, ferlega kaldar, sérstaklega eftir miðjan mánuðinn. Þetta má glögglega sá á meðfylgjandi vindrós fyrir maí.

Frá faglegu hliðinni
Á bloggsíðu sinni, http://esv.blog.is, segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, og varpar það líklega ágætu ljósi á veðurfarið í maí á landsvísu:

Merkilegt nokk þá virðist þessi maímánuður ekki ætla að marka nein sérstök spor í veðurfarssögunni. Þrátt fyrir alvöru kuldakast í yfir vikutíma eftir miðjan mánuðinn verður hitinn yfir meðallagi víðast hvar á landinu (kannski síst um norðvestanvert landið).  Þökk sé hagstæðari tíð framan af eða frá um 2. maí fram yfir þ. 15.  Ef sá góði kafli hefði ekki komið væri mánuðirinn að öllum líkindum í slöku meðallagi. 

Í Reykjavík stefnir í um 0,5°C yfir meðallag mánaðrins og á Akureyri um 1,0°C yfir maímeðaltalinu 1961-1990.  Ágætt það.  Það sem vekur kannski meiri athygli er úrkoman, en þegar dagur er eftir í mælingum hefur hún reynst vera meiri á Akureyri en í Reykjavík.  55 mm (tvöföld) á móti 53 mm í Rvk. En það sem meira er að um helmingur mánaðarúrkomunnar í Reykjavík féll fyrsta daginn (25 mm að morgni 1. maí)  og þótti það ansi mikið.   Sumir eru e.t.b. nú þegar búnir að gleyma lausamjöllinni í Höfuðborginni að morgni þess dags. Hann féll reyndar að miklu leyti fyrir miðnætti, þ.e. í apríl, en telst samt til maí skv. reglunum um skiptingar á milli mánaða í úrkomu. 

Á Akureyri kom megnið af úrkomunni hins vegar í þremur slumpum um miðbik maí mánaðar.