Sjómannadagurinn var að venju haldinn hátíðlegur síðasta laugardag. Komu þá flestir bæjarbúar saman og skemmtu sér í blíðskaparveðri. Góða veðrið er raunar fastur liður á dagskrá hátíðarhaldara sem er Björgunarsveitin Strönd.
Farið var í hefðbundnar þjóðlegar íþróttir, meðal annars í sjóboðssund. Í því voru keppendur fullklæddir, komu samt kuldalegir upp úr sjónum enda ekkert samræmi í hita í lofti og legi. Svo skemmtu kraftalegir menn hinum með því að togast á um reipi. Efnt var til nýstárlegs hindrunarhlaups eftir brettum sem flutu í sjónum. Vakti mesta kátínu þegar keppendur duttu í sjóinn eftir að hafa reynt sig við hindranirnar.
Tveir sjómenn voru heiðraðir og þeir eru Lýður Hallbertsson og Sveinn Garðarsson.
Steindór R. Haraldsson var kynnir og fórst honum starfið vel úr hendi eins og við var að búast. Hann hafði til dæmis þá skoðun að baráttan um bandspottann nefndist reiptog en alls ekki reipitop og raunar bannfærði síðarnefndu orðmyndina úr skagstrendsku máli.
Og svo hittust vinir og kunningjar, skeggræddu um lífsins gang, kreppuna fyrir sunnan, gleðina á Skagaströnd og ekki síst framtíð lands og lýðs í skugga náttúruhamfara, jafnvel þeirra sem mennirnir hafa skapað.