Mynd af lúpínu í kvöldsól á Spákonufellshöfða hefur verið valin besta myndin í ljósmyndasamkeppni sem efnt var til í tilefni formlegrar opnunar á gönguleiðum um Höfðann. Ljósmyndarinn er Ólafur Bernódusson.
Önnur verðlaunin er mynd af geldingahnappi í fjörugrjóti sem vex út úr sprungu á steini í fjörunni milli Reiðingsflatar og Sauðskers í Geldinganesi. Ljósmyndarinn er Marian Bijelenga, myndlistamaður frá Hollandi, sem dvelur hér á vegum Nes-listamiðstöðvar.
Dómnefndin telur mynd Ólafs vera einstaklega vel heppnaða.
Ljósmyndarinn nýtti sér stund og stað, miðnætursólina sem var að því komin að setjast og staðurinn var við lúpínu. Kvöldsólargeislarnir gylla neðri hluta lúpínunnar en á efri hluta hennar verða til margvíslegir mildir litatónar á blómi plöntunnar, allt frá dökkbláum út í ljósbláa og fölrauða. Frá myndinni geislar kvöldstemming og hughrif sem verða til um miðnæturbil í Spákonufellshöfða.
Í fyrstu verðlaun var myndavél af gerðinni Pentax Optio E35.
Mynd Marian er vel tekin. Hún leggur megináherslu á sjálfan geldingahnappinn og harðúðugt umhverfið. Ótrúlegt að nokkur plnata geti þrifist á þessum slóðum þar sem brimið svarrar og virðist engu eira. Lífið kviknar þó á ólíklegustu stöðum eins og myndin sannar.
Önnur verðlaun var bókin „Íslenskur fuglavísir“ eftir Jóhann Óla Hilmarsson, fuglafræðing. Höfundurinn tók allar myndirnar sem eru á fugla- og gróðurskiltunum á Höfðanum og samdi auk þess textann.
Bókin hefur verið mjög vinsæl en er hins vegar afar fágæt.
Fjölmargar myndir bárust í samkeppninna og eru öllum þeim sem þátt tóku færðar bestu þakkir fyrir framlag sitt. Dómnefndin átti í raun afar erfitt með eð gera upp á milli fjölda góðra mynda.