Verkefnastyrkir til menningarstarfs

Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki á grundvelli menningarsamnings mennta- og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis við SSNV. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarf og menningartengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra.

Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að hafa tvær úthlutanir á árinu 2010, með umsóknarfrestum til og með 15. mars og 15. september.

Menningarráð hefur ákveðið að þau verkefni hafi forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:

  • Efling atvinnustarfsemi, þekkingar og fræðslu á sviði menningar og lista.
  • Samstarf milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga eða listgreina og uppsetning viðburða á fleiri en einum stað.
  • Nýsköpun og þróun menningarstarfs og menningartengdrar ferðaþjónustu.
  • Verkefni sem stuðla að þátttöku allra þjóðfélagshópa í menningarstarfi.

Umsækjendur geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Norðurlandi vestra. Skilyrði er að viðkomandi sýni fram á mótframlag.

Umsækjendum er bent á að kynna sér nánar úthlutunarreglur 2010 og stefnumótun í menningarmálum á www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð.

Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Menningarráðs Norðurlands vestra sem hægt er að nálgast á heimasíðunni www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð. Í umsókninni skal m.a. vera greinargóð lýsing á verkefninu með verkáætlun og tímasetningum, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur.

Umsóknir vegna fyrri úthlutunar ársins 2010 skulu sendar Menningarfulltrúa Norðurlands vestra, Einbúastíg 2, 545  Skagaströnd, eigi síðar en 15. mars 2010. Þær má senda rafrænt á netfangið menning@ssnv.is. Séu þær sendar í pósti skulu þær póststimplaðar eigi síðar en síðasta umsóknardag.

Allar nánari upplýsingar og aðstoð veitir Ingibergur Guðmundsson menningarfulltrúi Norðurlands vestra, símar 452 2901 / 892 3080, netfang menning@ssnv.is.