Viðlagatrygging Íslands (VTÍ ) átti fund í dag með fulltrúum sveitarfélaganna Skagastrandar og Skagabyggðar. Heimsóknin er liður í átaki stofnunarinnar til að bæta þekkingu á hlutverki hennar og skráningu opinberra mannvirkja í eigu sveitarfélaganna sem vátryggð eru hjá VTÍ.
Á fundinum var rætt um vátryggingavernd mannvirkja í eigu sveitarfélagsins og um mikilvægi þess að skráð verðmæti þeirra sé uppfært reglulega til að tryggja að eignirnar séu tryggðar að fullu áður en vátryggingaratburður á sér stað. Einnig var rætt um mikilvægi samvinnu sveitarfélagsins og VTÍ til að stuðla að markvissri endurbyggingu ef tjón verður á mannvirkjum.
Einnig var rætt um mikilvægi þess að íbúar séu meðvitaðir um hvort vátryggingavernd þeirra sé í lagi. Fram kom að ef innbú er vátryggt almennri lausafjártryggingu hjá vátryggingafélagi rennur hluti iðgjaldsins til VTÍ og tryggir þannig vátryggingavernd innbúsins komi til tjóns af völdum jarðskjálfta, eldgosa, vatns-, aur- eða snjóflóða skv. skilgreiningum laga um VTÍ (55/1992). Ef slík vátrygging er ekki til staðar greiðast engar bætur vegna innbús ef til tjóns kemur. Allar fasteignir eru hins vegar skylduvátryggðar gegn náttúruhamförum og eru iðgjöldin innheimt samhliða brunatryggingum fasteigna hjá almennu vátryggingafélögunum.