28.12.2012
Dagsetning: 28. desember 2012 kl. 11:30
Veðurstofan varar við óveðri á Vestfjörðum síðdegis og í nótt og á morgun norðan- og vestanlands. Ekkert ferðaveður verður á vestan- og norðanverðu landinu.
Spáin er eftirfarandi: NA 20-25 m/s og snjókoma á Vestfjörðum strax síðdegis í dag en N og NA 18-33 m/s (stormur og sums staðar fárviðri) um vestanvert landið í nótt og á morgun, hvassast á Vestfjörðum og sunnanverðu Snæfellsnesi. Mikið hægari vindur A- og SA-lands og á Suðurlandi. Talsverð eða mikil snjókoma á N-verðu landinu en rigning eða slydda S- og A-lands. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu vestantil annað kvöld, en hvessir þá A-lands í um 15-20 m/s.
Snjóflóðahætta: Víða hefur snjóað í fjalllendi undanfarna daga og snjóflóðahætta getur skapast hratt þegar hvessir. Þeim tilmælum er beint til skíðafólks, vélsleðamanna og annara, sem eru á ferð, að halda sig frá snjóflóðabrekkum og vera ekki á ferð, þar sem snjóflóð geta fallið. Einnig er fólki bent á að stöðva ekki farartæki sín á vegarköflum, þar sem hætta gæti verið á snjóflóðum.
Sjávarflóðahætta: Stórstreymt er þessa dagana samfara óvenju lágum loftþrýstingi, mikilli veðurhæð, ölduhæð og áhlaðanda. Sjómönnum er bent á að huga vel að bátum og skipum í höfnum áveðurs.
Fólki er bent á að ganga frá lausum munum, að það verður ekkert ferðaveður um N- og V-vert landið og að fylgjast náið með upplýsingum um veður og færð.
Vakthafandi veðurfræðingar: Björn Sævar Einarsson, Elín Björk Jónasdóttir og Árni Sigurðsson. Vakthafandi snjóflóðasérfræðingur: Sveinn Brynjólfsson.