Vígsla hringsjár á Skagaströnd.

 

Lionsklúbbur Skagastrandar vígði nýja hringsjá á Spákonufellshöfða 17. júní sl.

Gerð hrigsjárinnar er fyrsta verkefni sem Lionsklúbburinn réðst í og var ákvörðun um það tekin á fyrsta félagsfundi klúbbsins 17. október 2004.

 

Hönnuður hringsjárinnar er Jakob Hálfdanarson sem gert hefur margar slíkar vítt og breitt um landið. Vinna við verkið hófst svo sumarið 2005. Þá var valin sá staður sem hringsjáin stendur á og hafin upplýsingasöfnun fyrir gerð skífunnar og m.a. teknar myndir af fjallahringnum. Á sumrinu 2005 náðust nokkrir slíkir útsýnisdagar og eftir það fóru nokkrir örnefnasérfræðingar yfir myndir af fjallahringnum og báru kennsl á örnefni. Í framhaldi af því var gerð svokölluð innmæld örnefnaskrá og öll örnefni borin saman við landakort af svæðinu.

Sjálf hringsjáin, sem stundum er nefnd útsýnisskífa er þannig gerð að efnið í plötu hringsjárinnar er sérinnfluttur kopar. Örnefni og aðrar upplýsingar eru grafnar í koparinn sem er svo allur krómhúðaður. Það er gert til þess að verja hann gegn spanskgrænu sem oft hefur gert slíkar skífur skellóttar og illlæsilegar en ekki síður til þess að verja skífuna gegn skemmdarfýsn, t.d. rispun þar sem krómið er miklu harðara en koparinn, en mjög algengt er að menn vilji rita fangamark sitt á útsýnisskífur.

Skífan skiptist í nokkra hringlaga sammiðja reiti útfrá miðju skífunnar. Innst eru upplýsingar um heiti staðarins sem hringsjáin stendur á, um staðarákvörðun hennar og hæð yfir sjó, ásamt upplýsingum um það hver stóð að gerð hennar. Í næsta hringlaga reit er stjarna sem vísar til allra höfuðátta og þar eru einnig eyktamörkin gömlu tilgreind.Þá kemur breiðasti hringlaga reiturinn, en í honum birtast örnefnin og þar eru dregnar útlínur fjalla og kennileita.

Stuðlabergsstöpullinn sem skífan er sett á var keypt úr steinsmiðju þar sem mikil krafa er að sjálfsögðu um að skífan sé á réttum fleti og sterkri undirstöðu.

 

Kostnaður við gerð svona hringsjár er auðvitað talsverður og jafnframt mikil vinna sem þarf að leggja í gerð hans og uppsetningu. Lionsklúbburinn fékk góðan stuðning frá allmörgum aðilum til að gera verkið framkvæmanlegt og má þar m.a. nefna Pokasjóð, Eignarhaldsfélag Brunabótaf. Ísl, Sjávarútvegsráðuneyti, Höfðahrepp, Fisk Seafood, Landsbankann, Kaupþing banka og Áshrepp.

 

Við vígsluna mættu auk Lionsmanna nokkrir íbúar og gestir til að taka þátt í vígslu hringsjárinnar og til að skoða uppsetningu og handverk á skífunni. Veður var hins vegar fremur þungbúið til að skífan nýttist vel til að bera kennsl á örnefni. Við vígsluna kom hins vegar fram að Lionsmenn hafa væntingar um að skífan standi í nokkur hundruð ár og því mun fólki gefast tækifæri í framtíðinni til að nýta sér upplýsingar sem á henni eru.