Mikil slagsmál brutust út í gær í gamla húsnæði hafnarstjóra Skagstrandar er vísa þurfti gesti á dyr. Hafði hann lengi þráast við, vildi bara ekki fara. Að lokum þurfti hafnarstjórinn að óska eftir liðsinni tveggja fílefldra karlmanna sem voru við störf sín á bryggjunni til að koma honum út.
Vopnaðir bareflum réðust þeir að gestinum enda var ljóst að engar dygðu fortölurnar eða rökleiðslur gegn þeim sem reyna að leggja undir sig húsnæði annarra án nokkurs leyfis og neita að fara út.
Lengi dags börðu þeir svo á gestinum sem átti þó undarlega auðvelt með að víkja sér undan höggunum, voru þau þó úthugsuð en ekki að sama skapi markviss. Ekki er ljóst hvort gesturinn hafi verið undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna en hitt er klárt að karlanir voru báðir bláedrú.
Að lokum fara yfirleitt leikar þannig að hústakendur eiga ekki annars úrkosti en að hverfa á braut. Þannig gerist það yfirleitt í útlandinu þar sem þær eru mun algengari en hér á landi. Í Reykjavíkinni gerist það meira að segja að fólk leggi undir sig yfirgefin hús. Í slíkum tilfellum er kallað á lögguna.
Á Skagaströnd leysa menn málin einfaldlega með bareflum.
Sveittir hrósuðu karlarnir sigri og hafnarstjórinn brölti niður af skrifborðinu er músin trítlaði út. Þetta mun hafa verið aðkomumús.