Dagskrá fyrir gesti mótsins var upphaflega miðuð við að bjóða upp á talsverða útivist og vera í nánu sambandi við íslenska náttúru. Þegar leið að mótinu kom hins vegar í ljós að veður myndi ekki gefa mikið færi á slíku þar sem mótsdagana gekk á með norðan allhvössu veðri og úrhellisrigningu. Dagskráin beindist því fyrst og fremst að því að kynna menningu og strauma í Austur Húnavatnssýslu. Fyrri mótsdaginn var Laxasetur Íslands og Heimilisiðnaðarsafnið skoðuð og farið í heimsókn í púðagerðina Lagð að Hólabaki og í Þingeyrarkirkju. Norræna félagið bauð svo til kvöldverðar þar sem fiskréttir voru í aðalhlutverki. Seinni mótsdaginn var haldinn fundur um það helsta sem er að gerast í sveitarfélögunum og um framtíð vinabæjasamstarfsins. Þar var lýst mörgum áhugaverðum verkefnum sveitarfélaganna og á fundi um samstarfið var mjög eindreginn vilji fulltrúanna til að halda því áfram. Eftir fundinn var farið í heimsókn í Rannsóknarsetur HÍ, BioPol, Spákonuhof og í Nes listamiðstöð. Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður þar sem mótinu var formlega slitið.
Þrátt fyrir erfiðar veðuraðstæður þótti mótið takast vel og hinir norrænu gestir lýstu ánægju sinni með það. Í samstarfinu kemur oft fram hve mikill munur er á stærð Skagastrandar og hinna vinabæjanna í keðjunni þar sem íbúar eru um 30-40 þús. og í þeim stærsta, Växjö eru íbúar 85 þús. Það er því eðlilega talsverður munur á verkefnum og umfangi þeirra en á mótinu kom vel fram mikill áhugi gestanna á íslensku samfélagi, ekki síst vinabæ þeirra Skagaströnd.
Skýrslu um mótið á sænsku má finna hér