Vinabæjamót á Skagaströnd

 Norrænt vinabæjamót var haldið á Skagaströnd dagana 3.-5. júlí sl. Skagaströnd hefur í 25 ár verið í vinabæjakeðju með Aabenraa í Danmörku, Lohja í Finnlandi, Ringerike í Noregi og Växjö í Svíþjóð. Samhliða vinabæjatengslum sveitarfélaganna eru norrænu félögin í þeim með vinabæjatengsl innbyrðis. Vinabæjamót eru haldin á tveggja ára fresti til skiptis í sveitarfélögunum og eru því á 10 ára fresti á hverjum stað. Sú hefð hefur skapast að bjóða til til vinabæjamóta þremur pólitískum fulltrúum, einum „starfsmanni“ við vinabæjasamskipti og einum fulltrúa norræna félagsins. Öllum með mökum. Hópur gesta getur því farið upp í um 40 manns. Í ár ákvað bæjarráð Aabenraa að afþakka boð um þátttöku og mun taka samstarfið til nánari skoðunar seinna á árinu. Frá öðrum vinabæjum komu 8-9 manns auk fulltrúa norræna félagsins í Aabenraa og voru gestir mótsins því 28.

Dagskrá fyrir gesti mótsins var upphaflega miðuð við að bjóða upp á talsverða útivist og vera í nánu sambandi við íslenska náttúru. Þegar leið að mótinu kom hins vegar í ljós að veður myndi ekki gefa mikið færi á slíku þar sem mótsdagana gekk á með norðan allhvössu veðri og úrhellisrigningu. Dagskráin beindist því fyrst og fremst að því að kynna menningu og strauma í Austur Húnavatnssýslu. Fyrri mótsdaginn var Laxasetur Íslands og Heimilisiðnaðarsafnið skoðuð og farið í heimsókn í púðagerðina Lagð að Hólabaki og í Þingeyrarkirkju. Norræna félagið bauð svo til kvöldverðar þar sem fiskréttir voru í aðalhlutverki. Seinni mótsdaginn var haldinn fundur um það helsta sem er að gerast í sveitarfélögunum og um framtíð vinabæjasamstarfsins. Þar var lýst mörgum áhugaverðum verkefnum sveitarfélaganna og á fundi um samstarfið var mjög eindreginn vilji fulltrúanna til að halda því áfram. Eftir fundinn var farið í heimsókn í Rannsóknarsetur HÍ, BioPol, Spákonuhof og í Nes listamiðstöð. Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður þar sem mótinu var formlega slitið.

Þrátt fyrir erfiðar veðuraðstæður þótti mótið takast vel og hinir norrænu gestir lýstu ánægju sinni með það. Í samstarfinu kemur oft fram hve mikill munur er á stærð Skagastrandar og hinna vinabæjanna í keðjunni þar sem íbúar eru um 30-40 þús. og í þeim stærsta, Växjö eru íbúar 85 þús. Það er því eðlilega talsverður munur á verkefnum og umfangi þeirra en á mótinu kom vel fram mikill áhugi gestanna á íslensku samfélagi, ekki síst vinabæ þeirra Skagaströnd.

Skýrslu um mótið á sænsku má finna hér